140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[13:53]
Horfa

Atli Gíslason (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar og þess fullviss að meiri hluti þingmannanefndarinnar hafi komist að rökstuddum réttum niðurstöðum. Síðan fór ógæfan í hönd þegar atkvæðagreiðslan fór fram. Þá fór málið að mínu mati úr farvegi faglegrar umræðu, þ.e. fagleg umræða vék fyrir sjónarmiðum flokkapólitíkur og persónulegum ástæðum. Þarna urðu breytingar, nákvæmlega þarna, á faglegri meðferð þingmannanefndarinnar við atkvæðagreiðsluna.

Ég vil líka segja að mér finnst frávísunartillagan vega alvarlega að virðingu Alþingis, að virðing þess verði fyrir borð borin ef slík tillaga verður samþykkt, að vísa frá þessari tillögu án fræðilegrar faglegrar umfjöllunar. Við höfum ekkert að óttast, við skulum bara velta öllum steinum við eins og við gerðum í þingmannanefndinni (Forseti hringir.) og ganga svo til efnisafgreiðslu málsins.