140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[13:55]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég skil hv. þingmann þannig að ekki hafi orðið nein breyting á málinu sjálfu og skil því ekki röksemdafærsluna um að það þurfi aftur að fara að snúa öllum steinum við, nema þá til að moka yfir.

Ég spyr hv. þingmann annars. Hann vitnar ítrekað í ræðu sinni í Stefán Má Stefánsson háskólaprófessor máli sínu til stuðnings, sem hefur skrifað talsvert um þetta mál á síðum Morgunblaðsins undanfarna daga og vikur. Finnst hv. þingmanni það skipta máli varðandi álit þessa háskólaprófessors að hann hafi ekki bara veitt verjendum Geirs H. Haardes ráðgjöf og stuðning heldur þegið fyrir það greiðslur? Finnst hv. þingmanni það skipta máli í umfjöllun þessa máls? Varðar það trúverðugleika? Er það faglegt að því leytinu til að mati þingmannsins? Þingmaðurinn er löglærður og þekkir vel til málsins og því mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann (Forseti hringir.) telji að málflutningur háskólaprófessorsins sé kannski litaður af þessu.