140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[13:57]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Síðustu orð hv. þm. Atla Gíslasonar ættu að verða ýmsum, og þar á meðal hv. þm. Birni Val Gíslasyni, áminning um að velta fyrir sér rökunum í málunum, rökum með og á móti, lögfræðilegum rökum í málinu. Það sem við erum að ræða hér í dag er mjög mikil lögfræðileg spurning, raunar margar lögfræðilegar spurningar en fyrst og fremst tvær. Annars vegar er spurningin um það sem hefur vissulega verið varpað fram hér í dag, hvort Alþingi geti afturkallað ákæruna á hendur Geir H. Haarde, og síðan hvort Alþingi eigi að nýta heimildina til að afturkalla ákæruna. Þetta eru grundvallarspurningarnar.

Í þeirri tillögu sem hér er til umræðu, og ég styð, er þessum spurningum báðum svarað með jákvæðum hætti. Tímans vegna vísa ég almennt til þess sem þar stendur. Ég vil hins vegar nota tíma minn fyrst og fremst til að fjalla um fyrri spurninguna, þ.e. hvort Alþingi geti afturkallað ákæruna vegna þess að því hefur ítrekað verið haldið fram á opinberum vettvangi og hér í þingsal í dag að Alþingi geti það ekki, að Alþingi eigi ekki að gera það og megi ekki gera það. Það er spurning sem við þurfum að takast á við vegna þess að umræðan bendir til þess að ýmsir þingmenn ætli að nota það sem yfirskin og afsökun fyrir afstöðu sinni og stuðningi við frávísunartillöguna að málið sé ekki þingtækt, að það sé utan heimilda Alþingis að samþykkja tillöguna.

Ég ætla í ljósi frávísunartillögunnar sem fram hefur komið hér í dag að benda á að ef menn eru einfaldlega efnislega á móti því að afturkalla ákæruna, ef menn telja bara ekki komnar fram nægilega miklar breytingar eða breyttar forsendur til að afturkalla ákæruna, geta menn greitt atkvæði gegn tillögunni þegar hún kemur til lokaatkvæðagreiðslu. Það er afstaða sem hægt er að rökstyðja þó að ég sé ósammála henni. Það að styðja frávísunartillöguna felur í sér að málið komist aldrei á það stig, að það eigi að stöðva meðferð málsins hér í dag áður en það fær skoðun í nefnd, áður en þar er farið ofan í rök fyrir tillögunni og gegn henni, áður en það er skoðað af hálfu þingmanna og eftir atvikum sérfræðinga sem til þingnefndar koma hvort þessar efnislegu forsendur sem lágu að baki ákærunni séu breyttar.

Ef frávísunartillagan verður samþykkt er þingið einfaldlega að segja: Við ætlum ekki að skoða þetta ofan í kjölinn, við ætlum að taka afstöðu áður en við skoðum málið ofan í kjölinn, við ætlum að vísa þessu máli frá. Sú afstaða hlýtur að byggja á einhverjum hugmyndum um að þingið geti ekki afturkallað ákæruna. Það skyldi maður halda. Ef menn vilja ekki skoða málið, ef menn vilja ekki gefa því færi á að fara í gegnum þinglega meðferð, umræður í nefnd og síðari umr. eftir atvikum, hlýtur það að vera vegna þess að menn telji það ekki þingtækt eða menn telji það ekki eiga heima í þinginu eða eiga að fá þar umfjöllun. Það hlýtur að vera, það er ekki bara vegna þess að menn eru á móti efni tillögunnar.

Við erum ekki vön því á þingi að hafna því eftir 1. umr. um mál, hvorki lagafrumvörp né þingsályktunartillögur, að mál gangi til nefnda og fái þar skoðun. Auðvitað vitum við að ekki fara öll mál út úr nefnd. Það er þá ákvörðun nefnda, eftir skoðun væntanlega, að mál fari ekki út úr nefnd. Það hefur verið gagnrýnt en það er óþekkt, hæstv. forseti, eftir því sem ég best veit, að mál fái ekki skoðun í nefnd. Ég hygg að það sé óþekkt og væri raunar forvitnilegt að grafast fyrir um tölfræði í því sambandi.

Hér hefur verið vísað til þess að áður hafi komið fram frávísunartillögur á Alþingi gagnvart lagafrumvörpum og þingsályktunartillögum. En hvenær hefur það gerst? Það hefur gerst eftir skoðun máls í nefnd, eftir að nefndarmenn hafa fjallað um mál, farið yfir þau fram og til baka, kallað til gesti, leitað umsagna o.s.frv. Það hefur gerst þá, það hefur gerst eftir skoðun. Ég hygg að allir hljóti að vera sammála um að slíkt er miklu vandaðri vinnubrögð en að henda málinu út á þessu stigi máls. Ættum við ekki að geta verið sammála um það? Viljum við ekki skoða mál áður en við hendum því út? Er það ekki eðlilegt? Nema þá að menn séu sannfærðir um að málið sé einfaldlega ekki þingtækt. Það kann að vera að svo sé, það kann að vera að sumir í þessum sal séu sannfærðir um að málið sé ekki þingtækt, að þarna sé verið að leggja til að Alþingi geri eitthvað sem það getur ekki gert. Það kann að vera, það hefur örlað á því sjónarmiði í umræðum hér í dag.

Ég vek athygli reyndar á því að frávísunartillagan er ekki beinlínis rökstudd með þeim hætti þó að það komi hins vegar fram hjá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni að það sé grundvöllurinn að því að hann standi að henni ásamt fleirum. Það kemur samt ekki fram í skýringum með tillögunni sjálfri þó að það sé einhver undirliggjandi ástæða að þeir séu ósáttir við úrskurð forseta Alþingis um að málið sé þingtækt.

Telji menn að þetta mál sé ekki þingtækt, telji menn að þarna sé verið að leggja til að Alþingi geri eitthvað sem það getur ekki gert — kallar það á hvað? Þá kallar það á að menn komi með einhver lögfræðileg rök fyrir máli sínu, að menn færi einhver lögfræðileg rök fyrir því að Alþingi geti ekki afturkallað málið og að það sé þar af leiðandi ekki þingtækt. Er ósanngjarnt að lýsa eftir slíkum lögfræðilegum rökum, er ósanngjarnt að gera það? Ég held ekki.

Það nægir ekki að menn segi: Ég er á móti málinu, ég er ósammála málinu, þess vegna tel ég það ekki þingtækt. Það gengur ekki, menn þurfa að kafa aðeins dýpra. Það verður að gera þá kröfu til manna að þeir kafi aðeins dýpra en að vísa til einnar setningar í riti Ólafs Jóhannessonar og einnar setningar í riti Bjarna Benediktssonar, að menn til dæmis leitist við að svara þeim rökum sem Róbert Spanó lagaprófessor og fleiri fræðimenn og lögfræðingar hafa sett fram á undanförnum dögum, að menn komi með einhver lögfræðileg rök til þess að hrekja það sem hefur komið fram í skrifum þessara manna á undanförnum dögum. Eru menn til í að reyna það? Ég vildi gjarnan sjá það, hæstv. forseti.

Ef menn eru ekki tilbúnir að færa lögfræðileg rök fyrir því að þetta mál eigi ekki heima hér á þingi, eigi ekki að fá þinglega meðferð, hvað segir það um málflutning þeirra? Hvað segir það um tilgang þeirra? Er ætlunin virkilega að koma í veg fyrir umfjöllun um mál, koma í veg fyrir að leitað sé eftir röksemdum og gagnrökum? Er það svo? Á hvaða grunni byggir svoleiðis aðgerð hér í þinginu, hæstv. forseti?