140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[14:11]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég bið hv. þingmann vinsamlega að svara spurningunni vegna þess að hann gerði það ekki í þessu svari við andsvari. Það sem um var að ræða og það sem birtist í orðum hv. þingmanns er að efnislega telur hann ekki forsendur fyrir því að Alþingi samþykki tillögu hv. þm. Bjarna Benediktssonar, ég held að við séum sammála um það. Efnislega er hann á móti því að tillagan um að afturkalla ákæruna nái fram að ganga. Gott og vel, ég er ósammála því áliti, hv. þingmaður er sammála því áliti. Er það nægt tilefni fyrir hv. þingmann, þ.e. efnisleg andstaða við málið, til að hann styðji frávísunartillögu þannig að málið fái ekki skoðun í nefnd, þannig að ekki sé skoðað í nefnd hvaða rök eru fyrir málinu, hvaða rök eru fyrir því sem tillöguflytjandi segir og hvaða rök eru fyrir sjónarmiðum úr gagnstæðri átt? Það bara má ekki fá skoðun í nefnd — (Forseti hringir.) er það skoðun hv. þingmanns?