140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[14:14]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að það liggi skýrt fyrir að einhverjir þingmenn hafi klárlega tekið pólitíska ákvörðun þegar málið var til afgreiðslu hér á sínum tíma. Það sýnir sig best í því að eini flokkurinn sem kom samstilltur með pólitíska línu inn í málið var Sjálfstæðisflokkurinn. Og það er aftur sami Sjálfstæðisflokkurinn sem kemur með málið hingað á þeim forsendum sem liggja fyrir í umræddri tillögu. Ég lít svo á að það sé ekki hlutverk Alþingis að taka málið úr höndum landsdóms og vísa til þeirra fræðimanna sem hafa fjallað um það mál.