140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[14:20]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Lúðvík Geirsson kemur inn fyrir þingmanninn Þórunni Sveinbjarnardóttur sem greiddi atkvæði gegn ákæru á alla fjóra sem til umræðu voru á sínum tíma.

Hv. þingmaður kom inn á það áðan að hann væri búinn að komast að þeirri niðurstöðu sjálfur að það hefði verið efnislega rétt að fara í þessa vegferð. Ef hann ræktar ákæruhlutverk sitt, sem hann verður að taka alvarlega, segir hann að það séu meiri líkur á sakfellingu en sýknu, bara þannig að það sé undirstrikað með afstöðu hans til málsins. Ég vil hins vegar tala um það sem hann kom inn á varðandi ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar. Ég saknaði þess að hann minntist ekki á það sem hv. þm. Atli Gíslason sagði sem var meðal annars:

Frávísunartillagan, sem verður til umræðu væntanlega og afgreiðslu á eftir, vegur að virðingu Alþingis án þess að farið sé yfir tillöguna efnislega eða faglega.

Ég saknaði þessa hluta ræðunnar frá hv. þm. Atla Gíslasyni í ræðu hv. þm. Lúðvíks Geirssonar. Hvaða afstöðu og skoðun (Forseti hringir.) hefur hv. þingmaður á þessari niðurstöðu hv. þm. Atla Gíslasonar sem stýrði hinni svokölluðu Atlanefnd sem kom síðan með málið fyrir þingið?