140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[14:24]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Það er rétt sem sagt hefur verið í umræðunni að hér er á ferðinni mjög vandmeðfarið mál, mikilvægt mál, sem snertir marga og er eðlilegt að menn vandi sig í málflutningi sínum. Við getum að sjálfsögðu haft mismunandi skoðanir bæði á tillögunni sjálfri, sem hv. þm. Bjarni Benediktsson flytur, og tillögu til rökstuddrar dagskrár sem hér liggur einnig fyrir.

Á þeim stutta tíma sem til ráðstöfunar er vil ég fyrst og fremst horfa á það álitaefni sem upp hefur komið í umræðunni, hvort Alþingi í raun geti haft afskipti af þessu máli eftir að það hefur sent það til landsdóms eins og gert var með þingsályktun Alþingis í septembermánuði árið 2010. Það er rétt að tillaga meiri hluta þingmannanefndarinnar undir formennsku Atla Gíslasonar gerði ráð fyrir því að höfða mál á hendur fjórum ráðherrum, í fjórum töluliðum var gert ráð fyrir að höfða má á hendur fjórum ráðherrum fyrir vanrækslu í starfi. Í því efni má líta svo á að þegar Alþingi var ákæruvald á þeim tímapunkti hafi það verið fjölskipað sem slíkt, það tók ákvörðun í þingsal með atkvæðagreiðslu. Menn geta að sjálfsögðu haft þá skoðun að niðurstaðan úr þeirri atkvæðagreiðslu hafi verið óheppileg eða ekki í takti við það sem menn sáu fyrir sér, t.d. ekki í takti við það sem meiri hluti þingmannanefndarinnar sá fyrir sér, en það var niðurstaða Alþingis engu að síður, ákæruvaldsins sem slíks.

Í frumvarpi til laga um landsdóm frá 1963, sem samið var af Ólafi Jóhannessyni og flutt af Bjarna Benediktssyni, þá dómsmálaráðherra, segir, með leyfi forseta:

„Það er nýmæli, að Alþingi kýs 5 menn úr sínum hópi — saksóknarnefnd — til þess að fylgjast með málinu og vera saksóknara til aðstoðar. Skal saksóknari hafa sem nánasta samvinnu við saksóknarnefnd Alþingis. Það þykir eðlilegt að gefa Alþingi, sem fer hér með ákæruvaldið, kost á því að fylgjast með þessum hætti með saksókninni. Er slíkt í senn saksóknara styrkur og aðhald. En eins og nú er, hefur Alþingi engin skipti af málinu, eftir að það hefur kjörið sóknara. Með kjöri saksóknarnefndar fær Alþingi hins vegar sérstaka fulltrúa til að fylgjast með saksókninni og ýta á eftir henni, ef þörf gerist.“

Þetta er eða hefur verið lengst af hinn viðtekni skilningur lögfræðinga og fræðimanna á þessu sviði, eftir því sem ég fæ best skilið. Því hefur ekki verið á móti mælt fyrr. En nú þegar þetta tiltekna mál er komið til dóms koma fram fræðimenn og lögfræðingar sem hafa annan skilning á þessu og ganga þannig á hólm við þessa viðteknu venju. Spurt er í ræðu: Af hverju koma menn ekki með rök fyrir því að vera ósammála þessum fræðimönnum sem komið hafa fram á síðustu dögum? Ég spyr: Hvar eru rök þeirra gegn þessari viðteknu skoðun sem lengi hefur verið uppi? (Gripið fram í.) Frá mínum bæjardyrum séð eru þau rök sem komið hafa fram ekki haldbær. Ég minni t.d. á að eitt af því sem bent hefur verið á er að lögum um landsdóm hafi verið breytt og vísað er í lögin um meðferð sakamála. Það var gert árið 2008.

Það hefur t.d. ekki breytt þeirri skoðun sem fram kemur í grein eftir Andra Árnason hæstaréttarlögmann þar sem hann segir, með leyfi forseta:

„Eftir að Alþingi hefur samþykkt þingsályktun um málshöfðun og kosið saksóknara Alþingis, varamann og þingnefnd er málið komið úr höndum þingsins. Alþingi getur ekki eftir það afturkallað málsókn, hvorki hið sama þing né nýskipað.“

Þetta skrifar Andri Árnason árið 2009, það er eftir að lögunum um meðferð sakamála var breytt, eins og vísað hefur verið í. Ég fæ því ekki séð að þeim skilningi hafi í raun verið hnekkt. Komið hafa fram ýmis sjónarmið en ég er ósammála þeim, ég tel að menn hafi ekki fært rök fyrir máli sínu. Menn hafa jafnvel sagt að fræðimenn á sínum tíma hafi ekki fært rök fyrir þessari túlkun sinni.

Ég verð því að segja alveg eins og er að niðurstaða mín er að það sé ekki í valdi Alþingis að taka þessa ákvörðun hér og nú, það væri þá eingöngu ef saksóknari sjálfur hlutaðist til um það gagnvart Alþingi að gera breytingu á ákærunni, fella niður ákæruliði eða eitthvað þess háttar sem Alþingi tæki málið upp aftur. Það er afstaða mín í málinu og það ræður þeirri afstöðu minni að ég styð tillögu til rökstuddrar dagskrár, ekki vegna þess að ég vilji ekki að málið fái efnislega meðferð, ég tel bara ekki að það sé í valdi Alþingis að gera það. Ef menn eru þeirrar skoðunar og halda sig við þá stjórnskipunarfræðinga sem fjallað hafa um málið, strax í upphafi, getur maður eiginlega ekki komist að annarri niðurstöðu en að vísa eigi málinu frá á þessum fundi.

Við getum auðvitað haft mismunandi skoðanir á því hvort það sé rétt eða ekki. En ég er sannfærður um að það er rétt túlkun og tel að það hljóti að hafa vakað fyrir þeim sem sömdu málið á sínum tíma og fjölluðu um það að Alþingi ætti síðan ekki að hafa afskipti af málinu eftir að það tæki þessa ákvörðun, burt séð frá því hvort menn telji hana síðan hafa verið rétta eða heppilega. Ég er alla vega algerlega sannfærður um að það er réttur skilningur.

Ég tel að það liggi fyrir að fræðimenn hafi lengi vel verið einróma í lagatúlkun sinni. Í 13. gr. laga um landsdóm eru nákvæm fyrirmæli um hvernig ákvörðun um málshöfðun gegn ráðherra skuli tekin. Í lögunum er hins vegar ekkert fjallað um afturköllun þeirrar ákvörðunar og þá auðvitað heldur ekki um heimild Alþingis til að fella niður mál sem til meðferðar er fyrir landsdómi. Það er því augljóst að ekki er gert ráð fyrir því að Alþingi hafi frekari afskipti af dómsmálinu.

Í 16. gr. laganna segir um saksóknara Alþingis, með leyfi forseta:

„Hann hefur um starf sitt samráð við saksóknarnefnd Alþingis.“

Lögskýringin sem fylgir í greinargerð með lagafrumvarpinu segir nákvæmlega um þetta ákvæði það sem ég var að lesa áðan, að Alþingi hafi ekki frekari skipti af málinu eftir að það hefur kosið sóknara til þess að reka það. Það er meginástæðan fyrir því að ég er þeirrar skoðunar að Alþingi sé ekki bært til þess að taka þessa ákvörðun. Ég tel að það hafi verið röng ákvörðun hjá forseta að taka málið á dagskrá en forseti hefur auðvitað dagskrárvaldið í sinni hendi og metur það. Ég hef leyfi til þess að vera ósammála því mati forsetans og ósammála þeim sem telja að eðlilegt sé að málið gangi til nefndar og til frekari umfjöllunar vegna þess að ég tel að með því sé í raun og veru verið að færa málsóknina í málinu, sókn og vörn í málinu inn í þingið. Ég tel að hún eigi heima fyrir landsdómi og að það sé réttlát málsmeðferð, landsdómur hljóti þá að komast að þeirri niðurstöðu sinni, með sýkn eða sakfellingu eftir atvikum. Ég tel að það sé eina rétta niðurstaðan sem við getum fengið í málinu en ekki að taka málið í þingsal og reka það hér, að færa rök verjanda, eða saksóknara eftir atvikum, inn í þingsal eða í þingnefnd úr því sem komið er.