140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[14:32]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil ekki hljóma leiðinlegur eða ómálefnalegur en ég hygg að hv. þingmaður þurfi að rökstyðja mál örlítið sitt betur þegar hann gengur gegn þeim skrifum sem komið hafa fram í fjölmiðlum á undanförnum dögum um þetta mál, t.d. frá forseta lagadeildar Háskóla Íslands, prófessor í lögfræði, fyrrverandi ríkissaksóknara og hæstaréttarlögmanni með áratugareynslu. Mér finnst að hann þurfi að koma með aðeins sterkari rök en bara þau að hann sé ósammála þeim skrifum. Ég get alveg virt það að hv. þingmaður geti verið ósammála þeim og mér en ég vildi gjarnan heyra rökin.

Staðreyndin er sú, hæstv. forseti, að Alþingi er handhafi ákæruvalds í þessu máli. Landsdómslögin hafa ekki sérákvæði um afturköllun ákæru. (Forseti hringir.) Þau vísa til sakamálalaganna um afturköllun ákæru eins og svo mörg önnur atriði sem ekki er kveðið á um í landsdómslögunum sjálfum. (Forseti hringir.) Í sakamálalögunum er skýrt kveðið á um að handhafi ákæruvalds hverju sinni geti afturkallað mál alveg fram að dómsuppkvaðningu.