140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[14:33]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði áðan tel ég að þeir sem skora á hólm hin viðteknu sjónarmið stjórnskipunarfræðinga, þeirra sem stóðu að samningu þessara laga og hugsuðu þau í þaula á sínum tíma, þurfi að rökstyðja mál sitt en ekki gera kröfu um að þeir sem vilja halda sig við viðtekinn skilning þurfi sérstaklega að færa rök fyrir því af hverju þeir eru ósammála einhverjum nýjum skoðunum sem upp koma nú þegar málið er í algleymingi.

Varðandi tilvísun í sakamálalögin vek ég athygli á því að breytingin sem gerð var á landsdómslögunum með vísan í sakamálalögin árið 2008 fjallaði um eitt orð, þar var breytt orðinu einkamál í orðið sakamál, tilvísun í lögin um sakamál í staðinn fyrir lögin um einkamál. Ég segi því: Í lögunum um landsdóm er kveðið á um að það skuli hafa hliðsjón af lögunum um meðferð sakamála eftir því sem við getur átt. Ég tel ekki að sú breyting sem þarna var gerð hafi lotið að þessu atriði sérstaklega enda hefði hún þurft að taka (Forseti hringir.) það þá fram með pósitífum hætti, sem ekki var gert.