140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[14:40]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Forseti. Það vakti athygli mína í Fréttablaðinu í dag að talað var um einhverja lögfræðinga sem sögðu að þetta væri ekki tæk leið, en þeir vildu ekki koma fram undir nafni. Það fannst mér mjög merkilegt. (ÁI: Þeir eru úr Sjálfstæðisflokknum.)

Við höfum m.a. bent á fræðimenn eins og Stefán Má Stefánsson, Ragnar H. Hall, Róbert Spanó og fleiri lögfræðinga sem sett hafa fram lögfræðileg rök fyrir því að þessi leið er bæði tæk og fær. (ÞSa: Allir þegja í röð.) — Mér finnst vont að heyra hvernig hv. þingmenn vega að fólki úti í bæ sem getur ekki komið hingað í salinn og varið sig. Mér finnst það miður og slæmt ef þetta er breytingin á Íslandi og hið svokallaða nýja Ísland.

Ég vil spyrja hv. þingmann varðandi þingmannanefndina, af því að það skiptir máli að þeir sem sátu í þingmannanefndinni, ekki bara einn heldur fleiri, það hafa a.m.k. tveir, þrír úr þingmannanefndinni svokölluðu sagt: Það urðu mistök við atkvæðagreiðsluna. Eru það ekki næg rök til að við förum efnislega yfir tillöguna? (Forseti hringir.) Við hvað eru menn hræddir? Við erum einfaldlega að biðja um að þingið fari efnislega yfir tillöguna. (Forseti hringir.) Ég spyr enn og aftur, herra forseti: Við hvað eru menn hræddir?