140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[14:42]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að hún hafi komið fram með nokkuð ljósum hætti afstaða hv. þingmanns varðandi lögfræðilegan þátt málsins.

Ég vil bera undir hann annað sem snýr að eðli þessa máls sem við fjöllum hér um. Þannig var að á dögunum kom fram yfirlýsing af hálfu stjórnar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Reykjavík.

Þar segir, með leyfi forseta:

„… hvetjum þingmenn flokksins til að vera samkvæmir sjálfum sér og greiða atkvæði gegn þingsályktunartillögu Sjálfstæðisflokksins þess efnis að máli Geirs H. Haarde verði vísað frá landsdómi.“

Síðan kemur, og það eru þessi ummæli sem ég vil bera undir hv. þingmann:

„Meðferð málsins fyrir landsdómi er mikilvægur liður í uppgjöri þjóðarinnar við meðal annars frjálshyggjuna og bankahrunið.“

Ég hefði áhuga á því, herra forseti, að heyra skoðun og afstöðu hv. þingmanns til þessarar skoðunar sem stjórn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lét frá sér fara í formi yfirlýsingar.