140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[14:44]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Nú er það svo að þó að hv. þingmaður hafi ekki verið lengi hér á þingi, ekki í mörg ár, má honum vera fullljóst að í þeim umræðum sem við eigum hér er alsiða og alvanalegt að menn spyrji um efni máls. Það sem hér er verið að ræða um er meðal annars grundvöllur þess að Alþingi hafi höfðað þetta mál. Þessi yfirlýsing Vinstri grænna í Reykjavík snýr einmitt að þeim þætti málsins. Það er því afskaplega eðlilegt að kallað sé eftir viðbrögðum hv. þingmanns við þessari skoðun, þ.e. að framgangur þessa máls sé nauðsynlegur liður í uppgjöri við frjálshyggjuna og þess vegna verði að halda málinu áfram.

Þá er því til að dreifa, og nauðsynlegt að hafa í huga, að að baki þessu sjónarmiði er sú skoðun, sem gengur þvert gegn réttarríkinu og grundvallarreglum þess, að pólitísk álitamál eigi að útkljá í réttarsal. Þess vegna beini ég enn og aftur þessari spurningu til hv. þingmanns því að það skiptir verulega miklu máli hver afstaða hans er hvað þetta varðar.