140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[14:50]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Samkvæmt lögunum er það þannig, eins og ég skil þau, að það er Alþingi sem kýs saksóknara til að reka málið af sinni hálfu, fara með það. Það er líka tekið fram í landsdómslögunum að ákæra verður að taka mið af þeirri þingsályktunartillögu sem Alþingi samþykkir, þ.e. hún getur til dæmis ekki farið út fyrir það, saksóknari getur ekki farið út fyrir það.

Ég tel að þau sjónarmið hafi verið uppi á sínum tíma, þegar þetta mál var hér til umfjöllunar af hálfu þingmannanefndarinnar, ef mig minnir rétt, að saksóknari gæti hugsanlega ákært fyrir færri atriði en þingsályktunin kvæði á um en ekki fleiri. Það kann að vera að mig misminni þegar ég segi að mig minni að sú umræða hafi verið uppi hér á sínum tíma. Það mundi þá væntanlega leiða til þess að ef saksóknari hefði frumkvæði að því að leggja til við Alþingi að gera breytingu á ákærunni, eða fella hana niður eftir atvikum eða hluta hennar, gæti Alþingi tekið slíka ákvörðun. En ég tel ekki að Alþingi geti haft frumkvæði að málinu samanber þær lögskýringar sem ég hef rakið hér áður.