140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[14:51]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Ég vil byrja á því að taka fram að þegar við sátum á þessum 54 fundum í þingmannanefndinni sem fjallaði um skýrslu þá sem rannsóknarnefnd Alþingis færði Alþingi þá tók ég ekki neina afstöðu eða ákvarðanir byggðar á pólitískum galdrabrennum eins og maður hefur verið vændur um. Vinnan í nefndinni var mjög fagleg og ég get alla vega sagt það fyrir mína parta að ákvarðanir mínar snerust fyrst og fremst um að einhver mundi bera ábyrgð á því stórfellda hruni.

Þegar við vorum búin að fara yfir alla skýrsluna bar okkur að kanna hvort forsendur væru fyrir því að kalla einhverja af æðstu ráðamönnum Íslands til ábyrgðar. Nefndin komst að faglegri niðurstöðu um það. Fundirnir snerust ekki um pólitík heldur faglega vinnu þar sem við fengum fjölda sérfræðinga með okkur til að fara yfir alla fletina. Farið var yfir mannréttindaþáttinn, farið yfir lögmæti þess hvað hægt væri að ákæra fólk fyrir ef það væri hægt, og það voru ákveðnar forsendur fyrir því af hverju — birtar voru fjórar mismunandi ályktanir um hvern og einn þingmann. Og ég minnist þess ekki að neinn, hvorki sjálfstæðismenn, vinstri grænir, samfylkingarmenn eða framsóknarmenn, þeir fulltrúar sem sátu í nefndinni, hafi gert þetta á flokkspólitískum nótum, þó svo að það hefði vissulega verið æskilegt þegar af stað var farið með þetta, eins og við bentum á, að skipuð yrði nefnd utan þings, fimm manna nefnd, jafnframt því sem skipuð yrði fimm manna þingmannanefnd í staðinn fyrir níu manna nefnd, því að það er alltaf hætta við að það verði flokkspólitískt.

Það sem ég upplifi hér í dag eru gríðarleg vonbrigði með þennan vinnustað, gríðarleg vonbrigði með okkur þingmenn. Mig langar bara til að lesa upp úr niðurstöðum í skýrslu þingmannanefndar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Hér á bls. 5 segir, með leyfi forseta:

„Hér á eftir fara meginniðurstöður og ályktanir þingmannanefndarinnar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og er þeim skipt í kafla er varða Alþingi, fjármálafyrirtæki, eftirlit, stjórnsýslu og siðferði og samfélag.“

Hér segir í lið 2.1 Alþingi:

„Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er sett fram gagnrýni á störf og starfshætti Alþingis sem mikilvægt er að bregðast við. Meginniðurstöður þingmannanefndarinnar varðandi Alþingi eru þær að auka þurfi sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu, leggja beri meiri áherslu á eftirlitshlutverk þingsins og auka fagmennsku við undirbúning löggjafar.

Þingmannanefndin telur brýnt að Alþingi taki starfshætti sína til endurskoðunar, verji og styrki sjálfstæði sitt og marki skýr skil á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins. Alþingi á ekki að vera verkfæri í höndum framkvæmdarvalds og oddvitaræðis.

Þingmannanefndin telur fulla ástæðu til að taka alvarlega gagnrýni í umfjöllun vinnuhóps um siðferði um íslenska stjórnmálamenningu og leggur áherslu á að draga verði lærdóm af henni.“ — Draga verði lærdóm af henni. — „Alþingi á að vera vettvangur umræðu sem tekur mið af almannahagsmunum.“ — Sem tekur mið af almannahagsmunum. — „Góð stjórnmálaumræða næst fram með því að láta andstæð sjónarmið mætast þar sem byggt er á staðreyndum og málin eru krufin til mergjar. Íslensk stjórnmál hafa ekki náð að þroskast nægilega í samræmi við það. Stjórnmálaumræður á Alþingi hafa einkennst um of af kappræðum og átökum og því þarf að efla góða rökræðusiði á Alþingi. Mikilvægt er að Alþingi ræki umræðuhlutverk sitt og sé vettvangur lýðræðislegra og málefnalegra skoðanaskipta.

Alþingismönnum ber að sýna hugrekki, heiðarleika og festu í störfum sínum. Brýnt er að Alþingi og alþingismenn endurheimti traust þjóðarinnar með orðum sínum og athöfnum.“

Ég velti fyrir mér hvort þessar umræður hér í dag verði til þess.

Mig langaði jafnframt að lesa aðeins meira upp úr þessari góðu skýrslu sem ég held að allt of margir séu hreinlega búnir að gleyma, en hér kemur þáttur um stjórnsýsluna:

„Í þessum kafla bendir vinnuhópurinn á að skilvirkni, hagkvæmni og heiðarleiki í stjórnsýslunni varði hagsmuni almennings. Höfuðviðfangsefni opinberrar stjórnsýslu sé að skapa borgurunum skilyrði til þess að lifa farsælu lífi. Þau skilyrði varði bæði réttarríkið, sem á að tryggja borgurunum jafnræði og sanngirni, og velferðarríkið, sem er ætlað að tryggja öryggi og afkomu borgaranna. Bent er á að stjórnsýslan starfi í mikilli nálægð við hið pólitíska vald. Sú nálægð geti skapað hagsmunaárekstra og spillingu. Smæð samfélagsins skapi ákveðnar forsendur fyrir fyrirgreiðslupólitík. Þessu sé unnt að mæta með setningu siðareglna í opinberri stjórnsýslu.“

Hvar eru siðareglur Alþingis, hvar eru þær? Af hverju höfum við þingmenn ekki, hæstv. forseti, skapað siðareglur hér, því að þá stæðum við kannski ekki í þeim sporum sem við stöndum í í dag?

Við þingmenn Hreyfingarinnar höfðum áhyggjur af því, þegar skýrsla rannsóknarnefndar kom hér inn á þing, að þingmenn ætluðu sér það hlutverk að fjalla um sig sjálfa, vini sína og kunningja, og gerðum okkur grein fyrir því að þetta yrði mjög þungur baggi fyrir Alþingi að bera. En því hafnaði þáverandi forsætisnefnd alfarið og dró hv. þm. Þór Saari sundur og saman í háði og vændi hann um að tala niður virðingu þingsins. Það hefði betur verið hlustað á hv. þm. Þór Saari þegar hann reyndi að benda á þessi mikilvægu atriði og hún var skammarleg aðförin að þingmanninum þegar hann kom með tillögur sem hefðu getað fyrirbyggt þau vandræði sem við erum í í dag.

Ég vil segja, í ljósi þeirrar umræðu sem hér er í dag, sem einkennist mjög af kappræðum og lagaklækjum og því að reyna að koma höggi á hina og þessa til að ná sínu fram: Ég held að ef þetta endar þannig hér í dag að landsdómur verði leystur upp sé ekkert annað í stöðunni en að leysa þingið upp og kalla fram einhvers konar neyðarstjórn. Ég hef áhyggjur af lýðræðinu ef okkur ætlar ekki að takast betur að höndla uppgjörið við hrunið. Þetta snýst ekki um að taka einn mann fyrir, þetta snýst fyrst og fremst um hver skipstjórinn í brúnni var. Sjóprófið fór fram með skýrslu rannsóknarnefndar og niðurstaðan var sú að kalla þyrfti saman landsdóm. Þetta er ekki persónulegt gagnvart Geir H. Haarde heldur snýr þetta að því hver var æðsti embættismaður á þeim tíma og hver bar ábyrgð á því að þjóðin gat ekki fengið tækifæri til að bregðast við vanda sem allir vissu af og mun því um ókomna tíð þurfa að bera þá bagga sem hún fékk ekki tækifæri til að vita af þó svo að æðstu embættismenn hafi vitað af því.

Mér finnst rétt að við leiðum þetta mál til lykta. Ef svo fer að álitið sé að þessi þingmannanefnd hafi haft rangt fyrir sér þá finnst mér réttast að gera það fyrir landsdómi, mér finnst réttast að kryfja þessi mál þar en ekki hér inni á þinginu. Það er ótækt og það er algjör vanvirðing við lýðræðið.