140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[15:04]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt að skilja hv. þingmann öðruvísi en svo að hún sé sammála því að um heildstæða tillögu hafi verið að ræða frá þingmannanefndinni. Það er skilningur hv. þm. Atla Gíslasonar að (Gripið fram í.) þarna hafi átt sér stað mistök. Hann segir meðal annars í ræðu sinni, með leyfi forseta, að það sé gott að vera vitur eftir á og það sé rétt að vera vitur eftir á, geri maður mistök. Hann telur jafnframt að eftir þessa niðurstöðu sé málið laskað og málatilbúnaðurinn eins og hann var frá meiri hluta þingmannanefndarinnar hafi ekki gengið fram eins og til var ætlast. Hann lýsti þessari skoðun sinni opinberlega í fjölmiðlum stuttu eftir að málið hafði hlotið afgreiðslu á þingi.

Ég spyr hv. þingmann hvort hún geti ekki fallist á að í ljósi þessara upplýsinga og þeirra upplýsinga sem hafa komið fram frá nokkrum öðrum þingmönnum sem leggja í raun sama mat á þetta og hv. þm. Atli Gíslason gerir í þessu máli, sé eðlilegt að þingið taki þetta mál til afgreiðslu aftur á þeim forsendum. Það þarf ekki að karpa um að sterk lagaleg rök eru fyrir því að þingið hafi fulla heimild til að taka þetta mál til umfjöllunar að nýju. Ég spyr því hvort ekki sé ástæða til að þingið taki þetta mál til meðhöndlunar, til málefnalegrar umræðu og afgreiði það (Forseti hringir.) í eðlilegan farveg í stað þess að vísa því frá. (Forseti hringir.) Ég minni á að hv. þingmaður tilheyrir hópi þingmanna úr Hreyfingunni sem hefur (Forseti hringir.) haft hátt um það að auka þurfi lýðræði í störfum þingsins.