140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[15:07]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Þegar ákveðið var haustið 2010 á grundvelli niðurstöðu meiri hluta þingmannanefndarinnar að ákæra skyldi fjóra ráðherra úr ríkisstjórn Geirs Haardes og draga þá fyrir landsdóm breyttist hlutverk alþingismanna í grundvallaratriðum, þessi salur breyttist og varð ákæruvald. Hvert og eitt okkar hafði þá skyldu að meta tillöguna sem fram var komin með gleraugum ákærandans, ekki stefnu flokks og skoðana flokksbræðra. Meðan þessi réttarhöld standa yfir á hendur fyrrverandi ráðherra heldur Alþingi á ákæruvaldinu og þarf að taka mið af þeim sjónarmiðum sem gilda um ákæruvald. Af hálfu þeirra sem báru þetta mál uppi haustið 2010 mátti skilja sem svo að rétt væri að ákæra alla fjóra ráðherrana, ellegar engan. Niðurstaðan varð hins vegar sú, eins og hér hefur verið rætt töluvert í dag, að aðeins einn maður sætti ákæru. Nú hefur hv. þm. Atli Gíslason, formaður nefndarinnar, lýst skoðun sinni hvað þetta mál varðar og mikilvægi þess að áliti hans að þetta væri eitt sameiginlegt mál en ekki fjögur aðskilin mál. Hefur hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson sem einnig átti sæti í þingmannanefndinni tekið undir það með hv. þm. Atla Gíslasyni að í ljósi þessa og þess sem á eftir hefur farið sé eðlilegt að málið fái að nýju faglega umræðu.

Þessu til viðbótar hefur það gerst að landsdómur hefur vísað frá veigamiklum ákæruliðum og málið hefur breyst töluvert frá því að tillagan var lögð fyrir ákæruvaldið Alþingi. Í dag hefur töluvert verið rætt um hvaða stöðu Alþingi hefur í málinu núna og hvort það hafi raunverulegar heimildir til að endurskoða ákvörðun sína eða öllu heldur að beita þeim úrræðum sem ákæruvald hefur. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson lýsti skoðun sinni á því í ræðu áðan og taldi að Alþingi gæti ekki gert það á grundvelli landsdómslaganna.

Ég vil af þessu tilefni rifja aðeins upp þá umræðu sem hefur verið í þjóðfélaginu undanfarna daga og vikur. Ég bendi líka á og minni á að þegar þingmannanefndin starfaði var leitað til sérfræðinga á sviði lögfræði um tiltekin atriði. Það er ekki síður mikilvægt, hefði ég haldið, fyrir okkur í þinginu núna að líta til þess sem sérfræðingar segja um stöðu Alþingis í málinu að þessu sinni.

Róbert Spanó prófessor skrifaði grein í Fréttablaðið nýverið þar sem hann lýsti skoðun sinni á þessu máli. Skoðun hans er sú að Alþingi hafi hvenær sem er óskoraða heimild til þess, áður en dómur hefur fallið í málinu, að ákveða hvort halda skuli áfram með málareksturinn. Vegna umræðunnar sem hér hefur farið fram langar mig að vitna í grein Róberts Spanós. Ég held að það skipti verulegu máli fyrir umræðuna að það sé gert og að þau sjónarmið sem hann hefur uppi komi fram. Ég tek fram að það er ekki einungis hann sem hefur ritað greinar af þessu tilefni, heldur hefur það líka komið fram hjá öðrum prófessorum í lögfræði, Stefáni Má Stefánssyni, Valtý Sigurðssyni, fyrrverandi ríkissaksóknara, og jafnframt kom afar athyglisverð grein frá Ragnari H. Hall í vikunni í Fréttablaðinu þar sem hann vísar meðal annars til eðlis ákæruvaldsins og hvernig því hefur verið beitt í öðrum tilteknum málum. Hefst þá lesturinn, með leyfi forseta:

„Við setningu landsdómslaga árið 1963 gerðu lögin ráð fyrir því að þegar sérreglum laganna sleppti færi um meðferð máls fyrir landsdómi eftir lögum um meðferð einkamála eftir því sem við gat átt. Að formi til gilti þá sú regla einkamálalaga að mál fyrir landsdómi yrði fellt niður ef stefnandi krefðist þess. Samkvæmt stjórnarskrá og lögum um landsdóm var Alþingi stefnandi ekki saksóknari þingsins. Hinn 1. janúar 2009 tóku lög nr. 88/2008, um meðferð sakamála, gildi. Þá var lögum um landsdóm breytt á þann veg að nú er vísað í staðinn til sakamálalaga. Í úrskurðum landsdóms í máli fyrrverandi forsætisráðherra hefur þetta tilvísunarákvæði haft verulega þýðingu.

Reglum sakamálalaga hefur verið beitt til fyllingar sérreglum landsdómslaga. Í úrskurði landsdóms frá 3. október sl. er skýrt tekið fram að það sé á valdi Alþingis að takmarka eða auka við ákæruatriði. Á því hafi saksóknari Alþingis ekkert forræði og verði hann því að beina því til Alþingis að samþykkja nýja þingsályktun um þær breytingar sem hann telur rétt að gera. Þótt þarna sé vísað til frumkvæðis saksóknara standa ekki rök til þess að Alþingi geti ekki sjálft ákveðið að eigin frumkvæði að gera breytingar á ákæru eða jafnvel að afturkalla hana. Alþingi hefur samkvæmt stjórnarskránni eitt forræði á því hvort mál sé höfðað og þar með einnig forræði á því hvort málshöfðun verði takmörkuð eða frá henni horfið að öllu leyti.“

Þetta er mikið grundvallaratriði þegar litið er til þess hvaða heimildir Alþingi hefur núna til að endurskoða ákvörðunina, taka þessa þingsályktunartillögu til meðferðar, vega og meta lagalega rök í málinu, hvort beina eigi því til saksóknara að falla frá ákæru eða ekki.

Við höfum í dag einnig fjallað töluvert um þann vilja ákveðins hluta þingmanna að vísa málinu frá án þess að Alþingi hafi tök á því að vega það og meta. Það undrar mig satt að segja töluvert þegar um er að ræða mál af þessum toga þar sem Alþingi fer með ákæruvaldið, þar sem maður stendur gagnvart dómara og yfir honum kann að vofa fangelsisvist og þar sem málið hefur breyst verulega, bæði að áliti þeirra sem báru málið upp í þinginu haustið 2010 og einnig með því að landsdómur hefur vísað frá tveimur veigamiklum ákæruliðum. Það er eðlilegt að því sé varpað fram hvort þeir ákæruliðir sem eftir standa hefðu orðið til þess að þessar ákærur hefðu verið gefnar út.

Þetta segi ég og ég fullyrði að af þessum sökum er nauðsynlegt fyrir ákæruvaldið Alþingi að taka málið aftur til skoðunar, ekki einungis með umræðu úr þessari pontu í dag heldur í þingnefnd og fá til ráðgjafar við sig færustu lögfræðinga á þessu sviði, virðulegi forseti, til að meta hvort það sé enn svo að mati meiri hluta þingmanna að meiri líkur séu á sekt en sýknu í málinu af því að það er grundvallaratriði.

Látum vera skoðun mína sem hefur ávallt verið sú að þau skilyrði séu ekki uppfyllt í þessu tiltekna máli. Látum það vera. En vegna þess hvernig málið er búið þarf að mínu áliti að fara aftur yfir það. Það vekur verulega furðu að hér séu þingmenn sem vilja ekki að þingið geti farið faglega yfir málið. Það skiptir auðvitað máli að þeir sem hvað mesta ábyrgð báru á málinu í þinginu haustið 2010 telja mjög brýnt að það verði gert.

Sú röksemdafærsla sem kemur síðan fram í frávísunartillögunni sjálfri er sjálfstætt athugunarefni. Þar er vísað til stjórnsýslureglna þegar litið er til þess hvort vísa eigi málinu frá. Aftur vil ég benda á það grundvallarhlutverk Alþingis eins og það birtist í dag og þegar kemur að ákærum á hendur fyrrverandi ráðherrum, að það er handhafi ákæruvalds. Ákæruvaldið, þ.e. Alþingi, getur, ef það telur rök hníga að því, hvenær sem er fram að því að dómur fellur í málinu komist að þeirri niðurstöðu að málið sé þannig búið að ekki sé ástæða til að halda því áfram.

Ég vænti þess vegna mikilvægis þessa máls, ekki síst þegar litið er til mannréttindaþátta þess, að Alþingi taki þetta hlutverk sitt alvarlega, taki málið til meðferðar og afgreiði það í dag til nefndar og það fái þar eðlilega umfjöllun.