140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[15:17]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég hlusta og hlusta á hv. þingmann og ég heyri engar þær breyttu forsendur, ég heyri ekki að haldið sé fram neinum þeim breyttu forsendum, sem réttlæti að málið sé kallað aftur. Hér eru uppi rök um það, lögfræðingar deila um það þannig að það sé orðað kurteislega, hvort Alþingi hefur rétt til að gera þetta. Sá vafi er túlkaður þeim í hag sem telja að Alþingi hafi þann rétt, það er athyglisverð túlkun og athyglisverður úrskurður forseta Alþingis. Það var til dæmis öfugt í máli nímenninganna, í þeirri fyrri tillögu sem fram kom um það efni — man ekki hvort sá úrskurður var opinber en hann var að minnsta kosti efnislega á þá leið. En það sem við erum aðallega að fjalla um hér í dag er ekki það hvort rétt sé að við ræðum þetta eða ekki heldur hvort rétt sé að við gerum þetta.

Þá hlýtur hv. þingmaður að fallast á að það sé ekki rétt að við gerum þetta „af því bara“ eða af því að þingmaðurinn varð undir í atkvæðagreiðslunni af því að sjónarmið hans náði ekki fram að ganga á sínum tíma heldur hljóti forsendur að hafa breyst sem að baki stóðu. Þá er ég að tala um alvörubreytingar og ekki þær breytingar að menn sem hafa skipt um flokka, og verið að skipta um ýmislegt, hafi skipt um skoðun eða lýsi yfir núna hvað þeir grétu mikið daginn eftir, heldur efnislegar forsendur sem hafi breyst frá september 2010 til janúar 2012 og hvenær þær breytingar urðu. Þá er ekki verið að ræða um fjárhag og ekki um það að hrunið hafi bara verið „svokallað“ hrun og ekki einu sinni um það að tveimur ákæruliðum hafi verið hafnað því að fjórir þeirra standa.