140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[15:19]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það undrar mig töluvert að hv. þingmaður og fleiri þingmenn hafi í tengslum við þetta mál nefnt mál nímenninganna svokallaðra því að hér er um algjörlega eðlisólík mál að ræða. Alþingi hefur ekki ákæruvaldið í því máli, Alþingi hefur ákæruvaldið í þessu máli. Alþingi hefur almennt ekki ákæruvald, það er bara á grundvelli þessara laga sem Alþingi hefur þetta vald og því fylgir gríðarlega mikil ábyrgð.

Hér liggur fyrir þingsályktunartillaga sem ég hygg að þingmaðurinn hafi lesið [Háreysti á þingpöllum.] af hálfu hv. þm. Bjarna Benediktssonar. [Háreysti á þingpöllum.]

(Forseti (RR): Forseti biður áheyrendur á pöllum að gefa hljóð. Að öðrum kosti verða þeir fjarlægðir af pöllunum.) [Háreysti á þingpöllum.]

Þar koma fram röksemdir fyrir því að [Háreysti á þingpöllum.] ástæða sé til þess að kalla málið …

(Forseti (RR): Forseti biður hv. þingmann að …)

Þar er það rökstutt, bæði þegar litið er til þess fjármálaáfalls sem heimurinn varð fyrir, líka með tilliti til þessara tveggja ákæruliða. Ef við höldum okkur við það, virðulegi forseti, eru veruleg áhöld um það hvort þeir ákæruliðir sem eftir standa gætu staðið sjálfstætt sem grundvöllur ákæru. Það er verulegur ágreiningur um það og ég hygg að þegar við ræðum mál af þessum toga, sem skiptir auðvitað gríðarlega miklu máli fyrir okkur hér, sé eðlilegt að þegar forsendur eru breyttar að ákæruvaldið á hverjum tíma, hvar sem það er, taki málið til umfjöllunar. Það er það sem hér er lagt til.