140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[15:23]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ávallt verið þeirrar skoðunar að yfirgnæfandi líkur séu á að fyrrverandi ráðherra, Geir H. Haarde, yrði sýknaður í þessu máli. Hv. þm. Mörður Árnason segir að þegar hann greiddi atkvæði haustið 2010 hafi hann talið að meiri líkur væru á því að hann væri sekur. Ég gæti þá spurt hann hvort hann sé enn þeirrar skoðunar eftir að þessir ákæruliðir eru brott fallnir. (MÁ: Forseti, get ég fengið að svara þessu?) — Ég geri ráð fyrir því að hann sé þeirrar skoðunar enn þá, miðað við að hann vilji ekki taka málið til efnislegrar umfjöllunar.

Grundvallaratriðið er að menn eru ekki dregnir í sakamálarannsókn til að athuga hvort þeir séu sekir eða saklausir. Það verða að vera verulegar líkur á að þeir séu sekir, þetta er grundvallaratriði. Þegar síðan koma fram upplýsingar um að einstakir þingmenn hafi talið, í upphafi atkvæðagreiðslu, eða í meðförum málsins, að það væri til dæmis væri ein heild, en síðan var það ekki, þá hefur það auðvitað áhrif á þetta mat. Þetta er alltaf mat.

Mér finnst virðulegir alþingismenn, frú forseti, gleyma því hvaða ábyrgð fylgir því að halda hér ákæruvaldi. Það er það sem þetta mál snýst um í grundvallaratriðum og mér finnst alveg stórfurðulegt að í allri þessari umræðu í dag hafa menn forðast alla þá umræðu.