140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[15:41]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég er enn sömu skoðunar. Ég hef ekki skipt um skoðun á því að mér finnst þeim ráðherrum úr fyrrverandi ríkisstjórn til mikils vansa að blanda sér yfirleitt í þetta mál. Ég lá ekkert á mínu áliti en það var ekki farið eftir því. Það væri kannski betra að fólk tæki meira mark á mér á þinginu. (Gripið fram í.) Ég reikna ekki með að afburðamenn eins og hv. þm. Jón Gunnarsson telji sig hafa þörf fyrir ráðgjöf á neinu sviði nema þá hugsanlega frá Hval hf.

Ég ítreka það sem ég hef sagt og það er alveg ókeypis lagatúlkun.

Án þess að spurt hafi verið að því skal ég segja hv. þingmanni, og þingheimi, að ég álít að með því að taka þessa þingsályktunartillögu á dagskrá þingsins hafi verið unnin réttarspjöll sem geri það að verkum að mér finnst meiri líkur en minni á því að landsdómur fjarlægi þennan kaleik frá sínum vörum.