140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[15:43]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég stíg hér í stólinn til að vita hvað líður þeim úrskurði sem farið var fram á í upphafi umræðunnar um þá tillögu hv. flutningsmanns að málið gangi til saksóknarnefndar. Það skiptir verulegu máli fyrir umræðuna að fá að vita þetta vegna þess að það kemur málinu við hvað eigi að gera í þeirri nefnd sem tekur við málinu á milli umræðna ef sú ætlan flutningsmanna nær fram að ganga.

Það er algjörlega eðlilegt að forseti láti okkur vita um þetta. Hann hefur nú fengið góðan tíma til að hugsa málið og bera það undir ráðgjafa sína. Saksóknarnefndin er kosin á grundvelli sérlaga um landsdóm, hún er ekki ein af fastanefndum þingsins. Hún hefur í raun — þó að það komi þessu máli ekki við — svipaða stöðu og til dæmis Þingvallanefnd sem er líka nefnd þingmanna sem er kosin í sérlögum. Væri það til dæmis tæk tillaga af minni hálfu að þessu máli yrði vísað til Þingvallanefndar þannig að ég sýni fram á fáránleikann í þeim rökum sem liggja að baki tillögu flutningsmanns? (Forseti hringir.) Ég fer fram á að forseti svari þessu. Ég veit að það er ekki sá sem nú situr á forsetastóli en hann hlýtur að geta komið boðum til þess forseta sem hér var kjörinn á sínum tíma.