140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[15:44]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Sú tillaga sem við ræðum lýtur að því að Alþingi dragi til baka ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, um brot á lögum um ráðherraábyrgð. Í tillögunni er því haldið fram að orðið hafi forsendubrestur frá því að ákæran var samþykkt og því beri að falla frá ákærunni.

Ég er meðal flutningsmanna að tillögu til rökstuddrar dagskrár um að vísa þessu máli frá og taka fyrir næsta mál á dagskrá þegar fyrri umr. lýkur. Það geri ég með hliðsjón af eftirfarandi: Annars vegar fer Alþingi með ákæruvald í málum vegna embættisbrota ráðherra, eins og ítrekað hefur komið fram og eins og við nýttum okkur í ráðherraábyrgðarlögunum, en þegar Alþingi er búið að taka ákvörðun um að ákæra ráðherra vegna meintra brota hans í embætti er þetta vald framselt til saksóknara Alþingis. Umsjón saksóknarvaldsins er falið saksóknara þingsins. Því tek ég undir þá túlkun sem kom fram í máli hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar um að þetta mál væri í raun ekki þingtækt og því eðlilegt að vísa því frá. Ég tel að dagurinn í dag sé besta sönnunin fyrir því að hlutirnir eigi að vera með þeim hætti og af hverju Ólafur Jóhannesson, Gunnar G. Schram og Andri Árnason töldu að svo ætti að vera. Það er til að tryggja að ekki sé hreyft við lögunum, ekki hreyft við ferlinu, til að tryggja þrískiptingu valdsins eins og farið hefur verið í gegnum í fyrri ræðum. Það er til að halda pólitíkinni fyrir utan. Þess vegna er lögð sú áhersla í orðum þessara manna sem ég talaði um að hvorki núverandi né nýtt þing geti kallað ákæruna til baka. Málið hefur verið falið saksóknara Alþingis og landsdómi.

Það hefur ekki komið fram beiðni frá saksóknara Alþingis um að kalla málið aftur og landsdómur hefur ekki tekið ákvörðun um að afturkalla málið. Þetta eru veigamestu rökin.

Ef við förum hins vegar efnislega í gegnum tillögu hv. þm. Bjarna Benediktssonar og rökstuðning þar fyrir að draga ákæruna til baka er talað um að frávísunin byggist fyrst og fremst á að frávísun tveggja veigamestu, að hans mati, af sex ákæruliðunum hafi breytt efnistökum ákærunnar. Ég er ósammála þessu mati, ég er algjörlega ósammála því að tveimur veigamestu liðum ákærunnar hafi verið vísað frá.

Það kemur fram í úrskurði landsdóms, í orðum ákæranda sjálfs, að liður 1.1 sé spegilmynd af ráðherraábyrgðarlögunum sjálfum og við niðurstöðu landsdóms var úrskurðað að sá liður kæmi ekki til efnisúrlausnar en litið verður á hina almennu lýsingu í þessum lið sem hluta ákærunnar til fyllingar öðrum liðum hennar. Það er ekki verið að kasta út því sem þar kemur fram, heldur verður það til fyllingar öðrum liðum.

Í því sem saksóknari Alþingis setti upp sem 1.2, að láta ekki vinna greiningu, sem var vísað frá líka er bent á að í þessum ákærulið sé að einhverju leyti lýst háttsemi sem fellur undir ákærulið 1.3 sem er áfram inni og það er að sinna ekki eftirliti með þeim samráðshópi sem fyrrverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, bar þó ábyrgð á og tryggja að vinna hópsins skilaði árangri.

Ég vil líka benda á annað. Þegar talað er um svokölluð veigamestu atriði í þessum sex ákæruliðum er uppsetning ákvæðanna önnur hjá saksóknara Alþingis en var þegar við afgreiddum málið frá okkur. Við vorum ekki með þetta númerað eins og saksóknari Alþingis. Við röðuðum þessu upp í kafla 1 og kafla 2. Undir kafla 1 vorum við með brot sem vörðuðu við 10. gr. ráðherraábyrgðarlaganna og undir kafla 2 það sem varðaði við 8. gr.

Áfram stendur að fyrrverandi forsætisráðherra hafi ekki sinnt eftirliti með samráðsnefndum eins og er talað um, samráðshópnum, og er þar með gert heldur lítið úr þeirri vinnu sem hefði þó getað skipt veigamiklu máli fyrir það að draga sem mest úr áhættu og áfalli fyrir íslenska þjóðarbúið. Það stendur líka eftir að ekki var staðið að minnkun efnahagsreikninganna og flutningi bankanna úr landi. Síðan er talað um að það hefði ekki getað komið í veg fyrir fjármálaáfall, en landsdómur tók ekki undir það. Hlutverk forsætisráðherra á þessum tíma var alls ekki að koma í veg fyrir fjármálaáfall heldur að draga úr skaða fyrir íslenskan almenning, þá sem kusu hann, þá sem veittu honum umboð og þá sem treystu honum fyrir þessu mikla valdi, að draga úr skaða.

Hefur nokkur gleymt Icesave? Ég tel að við flest teljum það stórmál. Hv. þm. Bjarni Benediktsson reyndi í morgun að gera lítið úr þessum þætti, að þetta hefði ekki valdið okkur svo miklum skaða og jafnvel hafa einhverjir haft á orði að núverandi ríkisstjórn bæri meiri ábyrgð á þeim skaða sem hefur orðið af Icesave. Þessu hafna ég algjörlega. Það hefur þegar orðið verulegt tjón fyrir íslenskan almenning. Ég minni á hryðjuverkalögin og að tvær þingsályktunartillögur liggja fyrir Alþingi um að kæra bresku ríkisstjórnina vegna beitingar hryðjuverkalaganna. Hver var ástæðan fyrir því?

Afgreiðslan hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og nú málarekstur hjá ESA og EFTA-dómstólnum hefur ekkert að gera með það að við stöndum föst á því að við berum enga ábyrgð. Ef það hefði verið hægt að koma Icesave-reikningunum í dótturfélög stæðum við ekki frammi fyrir þessum vanda og hefðum ekki orðið fyrir þessum skaða.

Síðan hafa menn ítrekað gert lítið úr stjórnarskrárbrotinu, ráðherrafundunum, þessu mikilvæga tæki til að tryggja lýðræðið, tryggja að fleiri kæmu að ákvörðununum, tryggja að ráðherrar ynnu vinnuna sína. Það er hlutverk forsætisráðherra sem verkstjóra að sjá til þess. Hver ætlar að segja mér að fjármálaáfallið sem var fram undan, það að íslenska ríkið skuli nánast hafa staðið frammi fyrir greiðsluþroti, það að Seðlabankinn skyldi verða gjaldþrota, að 95% af íslenska bankakerfinu skyldu verða gjaldþrota, hafi ekki flokkast undir mikilvægt stjórnarmálefni? (Gripið fram í.)

Síðan vil ég nota lokaorð mín um það sem hefur töluvert verið rætt, að það sé ekki jafnræði í að ákæra aðeins einn í stað fjögurra og atkvæðagreiðslunni sjálfri. Málið er fordæmalaust á svo margan máta. Það kom skýrt fram í vinnu þingmannanefndarinnar og líka í framhaldinu þegar við vorum búin að afgreiða þingsályktunartillöguna okkar að það væri mjög erfitt að meta líkur á sakfellingu vegna þess að málið er fordæmalaust. Það væri á endanum okkar að meta hvort það væru meiri eða minni líkur á sakfellingu og hvort almannahagsmunir væru það ríkir að það væri ástæða til að halda áfram með málið.

Í dómsorði landsdóms þegar þetta var tekið fyrir þar var bent á að alþingismenn væru samkvæmt 48. gr. stjórnarskrárinnar „eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum“. Samkvæmt því greiða þingmenn atkvæði um þingmál samkvæmt sannfæringu sinni. Því getur ákvæði 65. gr. stjórnarskrárinnar ekki átt við þó að niðurstaðan hafi orðið sú að ákærður skyldi einn af þeim fjórum ráðherrum sem tillagan tók til um að sættu ákæru. Enginn gerði athugasemd við að það ætti að greiða atkvæði um hvern og einn ráðherra, ekki fyrir atkvæðagreiðsluna, ekki meðan á henni stóð og svo sannarlega hafa ekki komið fram neinar athugasemdir hér svo ég viti til — fyrr en akkúrat í dag — við það að atkvæðagreiðslan skyldi hafa verið sett svona upp. Ég vissi að niðurstaðan gæti orðið enginn, einn, tveir, þrír eða fjórir. Ég byggði afstöðu mína á mati á einstökum ráðherrum, öllum þeim ráðherrum sem féllu undir (Forseti hringir.) ráðherraábyrgðarlögin og ég taldi að þannig ætti hver og einn þingmaður að gera. (Forseti hringir.) Allar yfirlýsingar um eitthvert tilfinningalegt uppnám eiga ekki við.