140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[16:05]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður svaraði ekki spurningu minni hvort hv. þingmaður teldi það eðlilegt að málið hefði farið til þingmannanefndar eftir atkvæðagreiðslurnar um hvern ráðherra fyrir sig. Eins og hv. þingmaður rakti í máli sínu og færði rök fyrir, og við erum klárlega ósammála um, var það niðurstaða hv. þingmanns að ákæra fjóra fyrrverandi hæstv. ráðherra vegna embættisafbrota og vanrækslu í starfi eins og það var orðað í þeirri ákæru.

Niðurstaðan varð hins vegar önnur. Niðurstaða hv. þingmanns eftir alla þessa vinnu í þingmannanefnd og meiri hluta hennar var að fara þá leið að ákæra fjóra. Lokaniðurstaðan varð hins vegar sú að einungis einn var ákærður. Ég held að við sem sátum í þingsalnum þegar sú atkvæðagreiðsla fór fram mundum aldrei vilja upplifa þá stund aftur.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann eftir á að hyggja hvort skynsamlegra hefði verið — eins og hv. þm. Atli Gíslason sem sat í þingmannanefndinni og stýrði henni nefndi og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson tók undir hér í andsvari fyrr í dag — fyrst atkvæðagreiðslan var sett upp með þeim hætti, að hafa tekið málið til umfjöllunar í nefndinni og hvort það hefði getað haft áhrif á niðurstöðu meiri hluta nefndarinnar.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann líka þeirrar spurningar hvort hún hefði talið eðlilegra að það hefði farið inn. Einnig vil ég spyrja hv. þingmann hvort þessi niðurstaða í málinu hafi haft einhver áhrif á það að hún hefði hugsanlega tekið aðra afstöðu málinu þegar hún sá hvernig atkvæðagreiðslan fór fram. Ekki var farið eftir tillögu meiri hluta nefndarinnar um að ákæra alla fjóra ráðherrana, heldur var einungis einn settur í snöruna með þeim aðferðum sem viðhöfð voru við atkvæðagreiðsluna eins og hv. þingmanni var fullkunnugt um sem sat hér í salnum.