140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[16:09]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil í þessari umræðu gera grein fyrir sjónarmiðum mínum í málinu. Fyrst vil ég þó gera að umtalsefni tvær flökkusögur eða þjóðsögur, mér liggur við að segja goðsagnir, sem hafa einkennt umræðuna um málið dálítið lengi. Sú fyrsta er sú kenning eða saga að þingmenn Samfylkingarinnar hafi með skipulegum hætti komið málum svo fyrir að einn fyrrverandi ráðherra færi fyrir landsdóm. Ég vil leggja á það áherslu að svo var ekki. Við meðferð þessa máls haustið 2010 höfðu þingmenn Samfylkingarinnar fullt frelsi til að taka eigin ákvarðanir og gerðu það. Við vissum ekki þegar við komum inn í þennan sal hvernig hvert og eitt okkar ætlaði að greiða atkvæði til fulls.

Einnig er vert að hafa í huga að þegar þeir þingmenn — það vil ég segja þeim félögum mínum til varnar sem greiddu atkvæði með því að ákæra fyrrverandi forsætisráðherra en ekki aðra — greiddu atkvæði í upphafi atkvæðagreiðslunnar vissu þeir ekki hvað mundi gerast í atkvæðagreiðslu um aðra. Þá lá í loftinu og hafði skýrt verið orðuð hótun úr ranni Sjálfstæðisflokksins, úr ákveðnum kimum þaðan, um að ef atkvæði samfylkingarmanna yrðu til þess að koma forsætisráðherra fyrir landsdóm mundi verða séð til þess að samfylkingarráðherrar fylgdu honum þangað. Það er svo Sjálfstæðisflokknum til mikils hróss að hann sýndi það af sér í atkvæðagreiðslunni sjálfri að fylgja ekki þessum röddum en ljóst er að þessar raddir komu fram.

Það er staðfest í viðtali við hv. þm. Bjarna Benediktsson að Styrmir Gunnarsson lagði að honum í þessa veru og hvatningar Davíðs Oddssonar lágu líka fyrir í þá veru. Það er Sjálfstæðisflokknum til mikils hróss að draga þetta mál ekki niður á flokkspólitískt far að þessu leyti, en það er vert að hafa í huga að Samfylkingin lagði þetta ekki fram með flokkspólitískum hætti.

Ég vil undirstrika það að þeir félagar mínir sem tóku þá ákvörðun að ákæra einn ráðherra eða einhverja ráðherra af þessum fjórum, ekki alla fjóra, tóku þá ákvörðun á forsendum eigin samvisku. Það var engin flokksleg lína í því. Ég var ekki sammála því, ég greiddi atkvæði gegn öllum ákærum, en ég vil undirstrika að ekki var um að ræða neina flokkslega línu í því efni.

Í dag rétt eins og þá munu þingmenn Samfylkingarinnar ekki greiða atkvæði um frávísunartillögu með einum rómi. Það eru ólík sjónarmið. Það er mjög mikilvægt að svigrúm sé fyrir það að ólík sjónarmið eigi sér hljómgrunn í Samfylkingunni að þessu leyti.

Ég vil líka gera upp við þá sérkennilegu kennisetningu sem svífur hér yfir vötnum mjög í dag að málið hafi einhvern veginn breyst í grundvallareðli við það að einn maður var ákærður en ekki aðrir. Því er ég algjörlega ósammála. Það leiðir af eðli ákæruvalds að ákært er fyrir tiltekinn verknað. Það kann vel að vera að bara einn maður gerist sekur um eitthvert brot. Ef ég brýst inn einhvers staðar og stel þá er systir mín ekki dæmd í fangelsi mér til samlætis og andlegrar uppörvunar. Hún er ekki ákærð þó að ég brjótist inn. Það er ekki þannig að ákæra fyrir dómi um saknæmt athæfi sé einhvers konar óvissuferð sem almennt eigi af kurteisisástæðum að dæma einhverja aðra til að fylgja mönnum í, að þetta sé einhvers konar hópferð, að þetta sé einhvers konar sérkennileg kennisetning um að ákæra eigi aðra sakborningi til samlætis. Það er auðvitað ekki þannig.

Það kunna vel að vera efnisástæður fyrir því að einn maður sæti ábyrgð. Í þessu tilviki taldi ég svo ekki vera. Mat mitt er óbreytt í því efni.

Þegar við nálgumst þetta mál núna verðum við að gera það út frá réttarstöðu sakbornings. Okkur leyfist ekki að taka ákvörðun út frá flokkspólitískum hagsmunum eða sjónarmiðum og það eigum við ekki að gera. Við eigum að meta málið á efnislegum forsendum og við verðum auðvitað að gæta að því að réttindi þessa sakbornings eru nákvæmlega jafnmikilvæg og réttindi allra annarra sakborninga í landinu. Þegar ég varaði við því haustið 2010 að þetta landsdómsferli væri gamalt og úrelt og ekki væri tryggt að réttindi sakbornings yrðu að fullu tryggð, þá sögðu þeir sem studdu ákæru alveg skýrt að svo yrði, réttindin yrðu varin vegna þess að sakamálalögin réðu ef landsdómslögin tryggðu ekki réttindi sakbornings nægjanlega vel.

Nú er ljóst að samkvæmt sakamálalögum á sakborningur rétt á því að ákæruvald endurmeti forsendur ákæru allt fram að því að mál er tekið til dóms og jafnvel fram yfir þann tíma eftir að mál er tekið til dóms. Þessi sakborningur á nákvæmlega sama rétt á því að sá sem með ákæruvald fari taki efnislega afstöðu til efasemda. Það er einfaldlega þannig og hefur verið skýrt í ákvörðun landsdóms í haust um frávísunarþættina aðra að ákæruvaldið er hjá Alþingi.

Ég mun því ekki styðja og mun greiða atkvæði gegn frávísunartillögu um þetta mál því að ég tel hana ekki boðlega. Ég tel að okkur beri að taka efnislega afstöðu til málsins. Okkur ber að vanda meðferðina hér með tilliti til hagsmuna sakbornings, ekki hvað síst vegna þess að ef meðferðin af hálfu Alþingis gefur tilefni til að ætla að pólitísk sjónarmið ráði en ekki efnisleg, er með því verið að veikja grundvöllinn fyrir málinu öllu og hætta á málsspjöllum eykst. Auðvitað skapast möguleikar fyrir sakborninginn að leita réttar síns fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu ef réttindi hans eru ekki virt í hvívetna.

Virðulegi forseti. Hér hafa menn velt því upp hvort þá muni þurfa að koma til réttarhalda í Alþingi, réttarhalda fyrir nefndinni. Ég hef ekki nokkrar áhyggjur af því. Ég tel eðlilegt að þingnefnd vandi til vinnu við málið og tel út af fyrir sig eðlilegt að það sé stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, það sé sú þingnefnd sem eigi að fara með mál af þeim toga er lúta að stjórnskipun landsins og hún leggi á málið mat og kanni efnisgrundvöllinn. Er einhver ástæða til að falla frá ákæru? Ég tek skýrt fram að ég hef enga mótaða skoðun um það álitaefni. Það er bara allt, allt önnur spurning. Færð hafa verið fram rök, m.a. þau að ákæruatriðin að því er varðar Icesave-málið stríði gegn málflutningi íslenskra stjórnvalda á alþjóðlegum vettvangi. Það er alveg ljóst að alþjóðlegur samanburður til dæmis hvað varðar viðbúnaðarstig í aðdraganda efnahagsáfallsins á að geta verið annars eðlis í dag en hann var 2010. Ég held að á árinu 2010 höfum við flest þá gert ráð fyrir því að Ísland væri að fara með allt, allt öðrum hætti út úr þessari efnahagslægð en önnur lönd, en svo er ekki. Það eru mörg önnur lönd að fara jafnvel enn verr en við. Í mörgum þeirra var viðbúnaðarstigið sannanlega minna en það var hér.

Allt eru þetta atriði sem á að ræða. Eitt af því sem þarf líka nauðsynlega að ræða í nefndinni í ljósi ræðna sem hér hafa verið haldnar, greinar hæstv. innanríkisráðherra, er hvort sú staðreynd að einstakir þingmenn sem greiddu ákæru atkvæði á sínum tíma og segjast núna hafa gert það á röngum forsendum, hvort sú afstaða þeirra eigi að hafa áhrif — ég endurtek, eigi að hafa áhrif. Ég er ekki viss um það. Kannski á ákvörðun Alþingis að standa eins og hún var, en það þarf að taka efnislega afstöðu til þess. Alþingi sem fer með ákæruvaldið verður að taka efnislega afstöðu til þeirra efasemda sem hér voru til dæmis færðar fram af hv. þm. Atla Gíslasyni í dag.

Síðan kemur niðurstaða frá nefndinni. Þá verða bara greidd atkvæði um það hér í þessum sal hvort falla beri frá ákæru. Það fer auðvitað eftir því hvernig málið liggur þá efnislega fyrir.

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að Alþingi stígi varlega til jarðar þegar það fer með þetta viðkvæma vald vegna þess að það er alger undantekning, eins og hér hefur oft komið fram hjá flestum í umræðunni í dag, að Alþingi fari með ákæruvald. Með það verðum við að fara af mikilli ábyrgð. Við megum ekki gleyma því að þar skiptir höfuðmáli að við gætum réttinda sakbornings sem verður að njóta af hálfu Alþingis og af hendi Alþingis sömu réttinda og hann mundi njóta af hendi ákæranda ef ákærandinn væri annar.