140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[16:21]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst er til þess að taka að ákæruvaldið er hjá Alþingi. Það er ekki hjá saksóknaranum og það er ekki hjá landsdómi. Samkvæmt sakamálalögum ber ákæranda að endurmeta ákæru ef ástæða er til og draga hana til baka allt fram til þess tíma að dómur er kveðinn upp í rauninni. Alþingi er að fara með það vald hér, ekki að grípa inn í dómsvald. Alþingi er að fara með það vald sem það sannanlega hefur og staðfest er af landsdómi að það hafi.

Efnisatriðin eru mismikilvæg og misþungvæg, ég er sammála hv. þingmanni hvað það varðar, í þingsályktunartillögu hv. þm. Bjarna Benediktssonar, en þau þurfa efnislegrar afgreiðslu við að mínu viti. Mér þykir ekki bragur á því að vísa málinu frá án þess að efnisleg afstaða komi fram til þess á grundvelli vinnu þingnefndar. Þá bara ítreka ég að ég tel að slíkt verklag mundi auka mjög líkur á sýknu sakbornings eða skapa honum í kjölfar sakfellis frekari möguleika til að leita réttar síns fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu, vegna þess að það blasir við að ákæruvaldið í þessu máli hefur hegðað sér með öðrum hætti en ákæruvald gerir samkvæmt sakamálaréttarfarinu sem við búum við í landinu.

Með öðrum orðum Alþingi Íslendinga hefur þá ekki tekið efnislega afstöðu til efasemda sem komið hafa meðan aðrir saksóknarar, þá venjulega ríkissaksóknari eða sérstakur saksóknari, sem fara með ákæruvaldið í öðrum málum, hafa gert það.