140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[16:45]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Um margt erum við ósammála, en um eitt ættum við þó að geta verið sammála, það að í þessu máli er uppi mikill ágreiningur. Ágreiningurinn lýtur bæði að hinum formlega þætti, því sem snýr að heimild þingsins til að taka þetta mál fyrir, heimild þingsins til að afturkalla ákæru ef fyrir því reynist meiri hluti. Það er deilt um það. Það er líka deilt um það hvort þingið eigi að afturkalla ákæru ef í ljós kemur að það hefur heimild til þess.

Það er deilt um þetta tvennt.

Hvernig ætlum við að komast að niðurstöðu um það hvernig málin liggja varðandi þessar tvær spurningar? Ætlum við að vísa málinu frá áður en við förum í gegnum þetta, t.d. í nefndarstarfi í þinginu? Ætlum við að gera það áður en við fáum tækifæri til að ræða við fræðimenn á þessu sviði? Ætlum við að gera það áður en við förum yfir rök og gagnrök? Ætlum við að gera það þannig eða ætlum við að taka afstöðu til þessara tveggja spurninga þegar við erum búin að fara í gegnum hina málefnalegu umræðu, þegar við erum búin að fara í gegnum hina málefnalegu athugun í nefnd sem er grundvallarþáttur í vinnubrögðum okkar í þinginu?