140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[16:49]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það gæti í sjálfu sér verið fróðlegt að taka allar þessar lögspekilegu vangaveltur til umræðu í þingnefnd. Ég sé hins vegar ekki tilefni til þess, einfaldlega vegna þess að þau rök sem boðið er upp á í þessari þingsályktunartillögu fyrir því að taka afstöðu til frávísunar ákæru halda ekki. Þetta eru ekki efnisleg rök og það þarf enga umfjöllun í þingnefnd til að komast að þeirri niðurstöðu.

Við erum að ræða málið í dag. Við höfum tekið heilan föstudag í að fara yfir röksemdir þingsályktunartillögunnar fyrir þessu máli og ég sé ekki að það þurfi þinglegan feril eða umfjöllun í nefnd til að komast að þeirri niðurstöðu sem liggur í raun og veru fyrir. Tilfinningar þingmanna eru ekki efnisleg ástæða, þau atriði sem vísað var frá landsdómi eru (Forseti hringir.) í raun og veru léttvæg en ekki þungvæg og aðrar þær ástæður (Forseti hringir.) sem gefnar eru upp í þessari þingsályktunartillögu geta ekki með neinni sanngirni talist efnisleg rök.