140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[16:54]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður heldur áfram að rugla því saman hvort efnisleg rök séu nauðsynleg forsenda þess að málið komi á dagskrá eða eigi jafnvel að sæta frávísun með rökstuddri dagskrártillögu og síðan hinu hvort meiningarmunur um hin efnislegu rök eigi að vera afgreiddur í nefndarvinnu á þinginu og milli fyrri og síðari umr. á þinginu. Það er að sjálfsögðu hinn eðlilegi farvegur eins og í öllum málum. Það mætti næstum því líkja þessu við það að hér kæmi fram tillaga um að ákæra og hv. þingmaður kæmi þá upp og segði: Það hafa ekki verið færð nægilega sterk efnisleg rök fyrir ákærunni til að hún komist á dagskrá, bara yfir höfuð.

Við hljótum að vísa þingsályktunartillögu um ákæru á hendur einhverjum tilteknum ráðherra einfaldlega frá þinginu vegna þess að hv. þingmaður er þeirrar skoðunar (Forseti hringir.) að fyrir henni séu ekki færð nægileg rök. Svona málflutningur stenst enga skoðun.