140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[17:09]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í öðru orðinu segir hv. þm. Mörður Árnason að hann sé þeirrar skoðunar að auðvitað eigi að leggja það til grundvallar þegar menn taka ákvörðun um ákæru hvort menn séu sannfærðir um að meiri líkur séu á því að hún leiði til sakfellingar en sýknu. Síðan segir hv. þingmaður að það væri sérstaklega heppilegt fyrir sakborninginn í þessu tilviki, Geir H. Haarde, að fá tækifæri til að sýkna sig fyrir landsdómi. Hv. þingmaður ætti nú að reyna, þó væri ekki nema í þessari ræðu sem tók tvær mínútur hjá honum, að vera dálítið samkvæmur sjálfum sér. Hv. þingmaður hlýtur annaðhvort að vera þeirrar skoðunar að þessi ákæra sé líklegri til að leiða til sakfellingar en sýknu, eða ekki. Við erum ósammála um það. Hv. þingmaður talar hins vegar um að það sé gert af einhverri sérstakri greiðasemi við sakborninginn að leiða hann fyrir landsdóm.

Það var nákvæmlega um sama atriði sem ég var að vitna til orða hv. þm. Magnúsar Orra Schrams. Ég vitnaði orðrétt til ummæla hans sem hann lét falla í blaðagrein sem auðvelt er að fletta upp 14. júní síðastliðinn í Fréttablaðinu. Síðan áréttaði hann það 16. desember í Kastljósi þegar hann spurði sjálfur hvort ekki væri farsælast fyrir Geir H. Haarde, væri hann saklaus, að fá stimpil á það frá landsdómi um að svo væri. Auðvitað er frá sjónarhóli þess sem er ákærður heppilegast að til ákærunnar komi ekki, ef menn eru þeirrar skoðunar að vafi sé á því hvort líklegra sé að hann verði sýknaður eður ei.

Um þetta snýst málið. Það snýst um hvort við viljum láta í þessu máli gilda hinar almennu reglur réttarfarsins og í hinum almennu reglum réttarfarsins getur ákæruvaldið fallið frá ákæru sinni, alveg til síðustu stundar eins og hv. þm. Árni Páll Árnason sagði. Mér heyrist að í þessu máli eigi að gilda aðrar reglur þegar kemur að landsdómi.