140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[17:15]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég hygg að það sé ágætt að víkja til upphafs þessa máls og rekja hvers vegna við erum þar stödd sem við erum í dag í málinu, hvernig það lagði af stað. Menn sameinuðust um það á Alþingi fyrir áramótin 2008, forseti Alþingis og formenn allra stjórnmálaflokka sem áttu fulltrúa á þingi, að flytja frumvarp til laga um rannsókn á orsökum og aðdraganda falls íslensku bankanna og tengdra atburða. Um það tókst góð samstaða. Ég var á þeim fundum og í því starfi sem leiddi til þessarar sameiginlegu niðurstöðu manna og er þar af leiðandi til vitnis um hvernig menn nálguðust viðfangsefnið. Ég leyfi mér að endursegja það þannig að menn voru sammála um að það væri nú það minnsta sem menn gætu gert í ljósi þeirra ógnaratburða sem hér urðu, þess stórkostlega tjóns og skaða sem íslenskt samfélag hafði orðið fyrir, að láta ekki undir höfuð leggjast að gera allt sem mögulegt væri til að upplýsa, rannsaka og leiða sannleikann í ljós og eftir atvikum varpa ljósi á ábyrgð þeirra sem í hlut ættu. Við vorum jafnframt sammála um það, og gengum til þess með opnum huga, að stjórnmálastéttin gæti ekki hlíft sjálfri sér í því tilviki. Það liggur rækilega skjalfest í forsögu málsins.

Sett voru lög nr. 142/2008, um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna. Í 1. gr. þessara laga segir, með leyfi forseta:

„Tilgangur laga þessara er að sérstök rannsóknarnefnd á vegum Alþingis leiti sannleikans um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. Þá skal hún leggja mat á hvort um mistök eða vanrækslu hafi verið að ræða við framkvæmd laga og reglna um fjármálastarfsemi á Íslandi og eftirlit með henni, og hverjir kunni að bera ábyrgð á því.“

Í 6. tölulið sömu greinar, 1. gr., segir að nefndin skuli gera ráðstafanir til að hlutaðeigandi yfirvöld fjalli um mál þar sem grunur vaknar við rannsókn nefndarinnar um refsiverða háttsemi eða brot á starfsskyldum og gera jafnframt grein fyrir þeim málum í skýrslu til Alþingis.

Í 14. gr. laganna er vikið að mögulegum brotum opinberra embættismanna og eftir atvikum ráðherra. Þar segir:

„Ef nefndin telur að ætla megi að opinber starfsmaður hafi gerst brotlegur við starfsskyldur sínar samkvæmt ákvæðum laga, nr. 70/1996, eða eftir ákvæðum annarra laga sem gilda um störf hans skal hún tilkynna viðkomandi forstöðumanni þar um og hlutaðeigandi ráðuneyti.“

Í 4. málsgrein sömu greinar segir:

„Um ábyrgð ráðherra fer samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð.“

Loks var frá því gengið í þessum lögum og það var hugsunin að baki því að viðbúnaður Alþingis væri klár þegar skýrsla rannsóknarnefndar kæmi, af því að menn gerðu sér allir grein fyrir því hvað í vændum gat verið, að kjósa skyldi níu manna þingnefnd til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndarinnar og móta tillögur að viðbrögðum Alþingis við niðurstöðum hennar. Nefndin skyldi skila tillögum sínum á því löggjafarþingi.

Loks segir í síðustu málsgrein 15. greinar, með leyfi forseta:

„Kosning þingmannanefndarinnar hefur sömu réttaráhrif og kosning rannsóknarnefndar skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar til athugunar á störfum ráðherra, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 4/1963, um ráðherraábyrgð.“

Ég dreg þetta hér fram til þess að varpa á það ljósi að mönnum var algerlega ljóst hvað í vændum gæti verið, auðvitað. Menn sammæltust um að ekki yrði undan því vikist að fara einnig ofan í þennan þátt málsins, að stjórnmálastéttin í landinu gæti ekki hlíft sjálfri sér við rannsókn á störfum sínum og greiningu á ábyrgð sinni þarna. Við lögðum sameiginlega úr vör í þann leiðangur. Samstaða var um málsmeðferðina alveg fram undir það að niðurstöðurnar komu úr sérnefnd Alþingis.

Tal um pólitískar ofsóknir, hvort sem það er innan lands eða í erlendum fjölmiðlum, finnst mér vera eitt af því allra dapurlegasta sem upp hefur komið eftir á til túlkunar á því að við tókumst á við niðurstöðurnar úr rannsóknarnefnd Alþingis og tillögur meiri hluta sérnefndarinnar. Við urðum að gera það og greiddum um það atkvæði.

Þess vegna verð ég að segja að mér finnst menn nú gerast drjúgir við að setja allt annan blæ á málið en nokkur tilefni eru til þegar undirbúningur þess og það sem fyrir lá að væri undir er haft í huga. Tillagan var afgreidd hér, ekki eins og ég greiddi atkvæði að öllu leyti, en ég var með fullri meðvitund og opin augun og ég hélt að það ætti almennt við um þingmenn, a.m.k. þá sem eitthvað hafa sinnt þingstörfum, að þeir vissu hvernig það fer fram. Við gerum þetta nær upp á hvern einasta dag, tillaga er borin upp til atkvæða og eftir atvikum breytingartillögur við hana og svo er hún í lokin borin upp svo breytt.

Nú koma menn og segja að biðja hafi átt um frestun á því 15, 16 mánuðum seinna, að þetta hafi kannski verið mistök. Það er ansi seint fram komið. Hefðu menn gert slíkar athugasemdir strax dagana eftir atkvæðagreiðsluna hefði verið ráðrúm til að velta því fyrir sér: Eigum við kannski að staldra við áður en við höldum vegferðinni áfram? En það var ekki gert, heldur var ráðinn hér saksóknari, honum var falið þetta verkefni og menn tóku að sér að setjast í sérstaka ráðgjafarnefnd með honum. Af hverju tóku menn þá sæti í þeirri nefnd ef þeir höfðu efasemdir um það sem þeir voru að gera? Af hverju kemur það allt í einu upp núna 12, 14 mánuðum seinna? Ég verð að segja að það undrar mig nokkuð.

Ég tel að við þurfum að svara þremur grundvallarspurningum í þessu máli:

Í fyrsta lagi, hafa orðið einhverjar grundvallarforsendubreytingar á málinu frá því að Alþingi tók ákvörðun sína, sem menn geta notað efnislega til að taka aðra afstöðu til málsins en þá? Ég hef þær ekki. Það hefur enginn fært mér rök fyrir því að þær hafi orðið. Þvert á móti er það hið gagnstæða því að landsdómur hefur nú fjallað um það. Vandinn er sá að ákærandi hefur ekki annað gefið í skyn en að leiða eigi að málið til lykta fyrir dómnum og landsdómur hefur sjálfur hafið störf, hann er búinn að koma saman og hafna frávísun á málið að langmestu leyti. Málið er komið í landsdóm. Hann er búinn að vera að fjalla um málið. Hann hefur þegar tekið afstöðu til þess með tilteknum hætti þannig að við værum þá að fara og sækja málið inn í dómsferli þar sem dómurinn hefur hafið störf í umfjöllun sinni um málið og þegar afgreitt ákveðna hluti í sambandi við það, sem sagt að málið er tækt til dóms.

Í öðru lagi þarf að svara spurningunni: Má Alþingi grípa inn í málið á þessu stigi? Um það eru miklar efasemdir, svo vægt sé til orða tekið, og þær snúa nú ekki að minna en jafnvel sjálfri stjórnarskránni. (Gripið fram í.) Þá þurfa menn væntanlega að hugsa sig um. Hvað á þá að njóta vafans, jafnvel þótt við segjum að hann sé uppi miðað við nýframkomnar lagatúlkanir sem ganga gegn öllum eldri túlkunum um að Alþingi sendi málið frá sér og að það sé úr þess höndum þegar það er komið til ákærandans?

Ég segi: Þá eiga þrískipting valdsins og stjórnarskráin að njóta vafans og Alþingi á alltaf að hugsa sig vel um áður en það fer inn í mál þegar slíkur vafi er uppi.

Í þriðja lagi þyrfti að svara spurningunni: Jafnvel þótt menn kæmust að því að meiri líkur en minni eða jafnvel yfirgnæfandi væru á því að Alþingi væri stætt á því að fara inn í málið nú, er það þá eitthvað sem menn gera, að sækja málin í dóm við þessar aðstæður? Mitt svar er líka nei.

Þar af leiðandi og vegna þess hversu afdrifaríkt ég tel það vera að Alþingi hleypi þessu máli lengra í ljósi þess sem hér hefur verið sagt, er hárrétt að svara fyrst spurningunni: Á yfir höfuð að fara lengra með þetta mál á Alþingi? Það er þá gert með því að greiða atkvæði um tillögu um rökstudda dagskrá og ég er henni sammála. Alþingi á ekki að fara lengra inn í þetta mál. Það er inngrip sem ekki mun sjá fyrir endann á.

Loks þarf þessi blessaða stofnun mín að fara svolítið að hugsa um sjálfa sig og hvar hún er (Gripið fram í: … er stofnunin okkar.) (Forseti hringir.) á vegi stödd — stofnunin okkar. (Forseti hringir.) Þarna fengu hv. þingmenn heldur betur fóður.