140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[17:27]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé ekki hægt samkvæmt þingsköpum. Ég hef aldrei heyrt af neinu öðru en því að þegar þingmál gengur til nefndar sé það þingnefnd. Það er annaðhvort þingnefnd sem er samkvæmt nefndaskipulagi þingsins eða sérnefnd sem Alþingi ákveður að kjósa sem hefur nákvæmlega sömu stöðu og þingnefnd til að taka við sérstökum málum eins og áður var gert varðandi stjórnarskrártillögur o.s.frv.

Það hefur aldrei hvarflað að mér að mönnum dytti í hug að vísa þingmáli til þinglegrar umfjöllunar annars staðar en í þingnefnd. Ég trúi því nú ekki fyrr en ég tek á að menn ætli að halda sig við slíka tillögu. Þar á ofan þyrfti náttúrlega að velta því mjög vandlega fyrir sér hvort ekki væri allra síst við hæfi að vísa málinu til ráðgjafarnefndar vegna lögbundins hlutverks hennar og stöðu í þessu máli. Allt annað mál er að sú þingnefnd sem fær málið til umfjöllunar kynni að leita álits þeirrar nefndar eða bera sig saman við hana, en að ráðgjafarnefndin eigi að rannsaka sjálft málið finnst mér ekki koma til greina. Það hlyti þá að vera þingnefnd, væntanlega stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd miðað við núverandi skipulag þingnefnda sem fengi málið til sín, nema menn vildu flytja tillögu um að kjósa sérnefnd.