140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[17:29]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins bæta við það sem hæstv. ráðherra sagði um aðdraganda þessa máls. Á sínum tíma vakti þáverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, máls á því hvort ekki væri skynsamlegt að reyna að fara ofan í orsakir hrunsins með þeim hætti að skrifuð yrði sérstök hvítbók af þeim aðilum sem menn kæmu sér saman um. Niðurstaðan af þeim viðræðum sem fóru fram milli forustumanna þáverandi þingflokka varð sú að setja á laggirnar rannsóknarnefnd Alþingis sem allir þekkja og var tillaga um það flutt á sínum tíma af fulltrúum allra þingflokkanna undir forustu þáverandi þingforseta, Sturlu Böðvarssonar.

Við þekkjum síðan hvað gerðist í kjölfarið og við fengum niðurstöðu sem skiptir auðvitað miklu máli. Þingmannanefndin fór síðan yfir málið. Það sem er veigamest í starfi þeirrar nefndar voru ýmsar ábendingar um ýmislegt sem mætti betur fara í stjórnsýslunni og í starfsháttum Alþingis. Ég hygg að það sé nokkuð sem við ættum fyrst og fremst að ræða núna og hvernig okkur hafi gengið að miða þeim málum áfram. Það kom einmitt fram í máli þeirra sem sátu í þingmannanefndinni að það væri það sem mestu máli skipti.

Hæstv. ráðherra velti því fyrir sér hvort rétt væri, eins og hann orðaði það, að fara inn í málið sem hér er um að ræða á þessu stigi.

Þá vil ég vekja athygli á því að Alþingi er ákæruvaldið í þessum efnum. Það er þar með stjórnarskrárbundinn réttur Alþingis að taka um það ákvörðun hvort breyta eigi ákærunni, hvort eigi að taka hana burt að einhverjum hluta eða afturkalla hana að öllu leyti. Það er sá stjórnarskrárbundni réttur sem Alþingi hefur. Ég tel þess vegna mjög eðlilegt að við ræðum það og komumst að niðurstöðu eftir meðhöndlun Alþingis hvort það eigi að gera eður ei. Ég tel að færð hafi verið mjög veigamikil rök fyrir því að svo skuli gera. Hæstv. ráðherra er mér ósammála um það. Um það er ágreiningur og eðlilegast að sá ágreiningur verði til lykta leiddur í efnislegri (Forseti hringir.) meðferð þingsins með atkvæðagreiðslu um það mál að lokum.