140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[17:35]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú hefur forseti Alþingis tekið þessa tillögu á dagskrá sem þingtæka, sem ég tel umdeilanlegt. Þar af leiðandi fer þessi umræða nú fram. Það er þá ágætt. Við skiptumst á skoðunum og berum fram rök í málinu og enginn getur kvartað undan því. Menn fá hér öll tækifæri, hver og einn þingmaður sem þess kýs að neyta, að fara yfir málið. Í framhaldi af þeirri umræðu er augljóst að þessi spurning kemur upp eins og málið er í pottinn búið: Á Alþingi að hafa frekari afskipti af þessu máli? Vill það grípa meira inn í mál sem er til meðferðar fyrir dómstólum en þegar er orðið með því að taka það til rækilegrar umræðu? Ég tel það ekki skynsamlegt.

Það getur enginn mælt á móti því að það er efnislegt að nálgast málið út frá þeim sjónarmiðum hvort Alþingi hafi heimild til þess að fara inn í málið eða hvort það sé við hæfi, hvort það sé skynsamlegt. (Gripið fram í.) Ég tel að það sé eðlilegast að útkljá það með atkvæðagreiðslu eins og væntanlega verður hér á grundvelli tillögu um rökstudda dagskrá.

Ég fór yfir það, hv. þingmaður, svo að ég svari frammíkallinu að ég tel að það sé í besta falli mikil óvissa um það hvernig eigi að túlka lög í þeim efnum, hvort Alþingi eigi yfir höfuð eða geti einfaldlega á grundvelli stjórnarskrárinnar skipt sér af máli sem komið er frá því. Ég tala nú ekki um þegar það er svona langt komið. Það er augljóst mál að verulegur stigsmunur er á því, svo að ekki sé sagt eðlismunur, hvort Alþingi hefði séð sig um hönd á fyrstu vikum eftir atkvæðagreiðsluna í september 2010 eða hvort það ætlar að gera það núna í miðju dómsferli. Það er allt annað og miklu alvarlegra inngrip í þá stöðu sem málið er núna komið í.