140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[17:37]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Í ljósi þeirra umræðna sem fóru hér fram í andsvörum áðan spyr ég í annað sinn í dag um hvað líði úrskurði forseta við spurningu sem borin var fram við hann fyrir einum sjö klukkutímum um hvort það sé þinglega rétt að vísa máli af þessu tagi til saksóknarnefndar. Ég hef rakið það að saksóknarnefnd er kosin samkvæmt sérstökum lögum. Ég lagði það til til þess að sýna stöðu málsins að fela Þingvallanefnd, sem líka er kosin samkvæmt sérstökum lögum, að fjalla um málið. Það var kannski ekki í fullkominni alvöru en það er nauðsynlegt að fá úr þessu skorið. Ef forseti telur þetta mögulegt þurfum við að ræða hverjir eru í saksóknarnefnd og hvort beri að kjósa í hana aftur eða með hvaða hætti hún á að fjalla um málið því að hún hefur ekki þau tæki til að fjalla um mál sem fastanefndir þingsins hafa. (Forseti hringir.)