140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[18:11]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Eina meginforsendan sem hv. þingmaður taldi fram fyrir því að samþykkja þessa tillögu eða ræða hana áfram — ég hlífi þingheimi við umræðu um neyðarlagarökin — var að það væri óheppilegt að hafa Icesave-málið í þessari ákæru og óheppilegt að landsdómur hefði tekið mark á því og ekki vísað því frá vegna þess að það gæti komið okkur illa í málflutningi fyrir ESA-dómstólnum.

Þá er kannski rétt, ef málið heldur áfram, að það verði kallað á þann lögfræðing sem nýlega var ráðinn af Íslands hálfu í því máli og hann látinn vitna um það fyrir saksóknarnefndinni, eða Þingvallanefnd eða þeirri nefnd sem við finnum út að sé heppilegt að fjalli um þetta, hvort það sé heppilegt fyrir okkur eða ekki. Það er bara ekki á svona forsendum sem við fjöllum um málið.

Svo ég víki mér að efninu sjálfu spyr ég hvort það sé skoðun hv. þingmanns að íslenskum stjórnvöldum hafi átt að vera sama á sínum tíma um það hvort Icesave-reikningarnir væru stofnaðir eða ekki með allri þeirri áhættu sem það hafði í för með sér, hefur og á eftir að hafa fyrir Íslendinga og efnahagslíf þeirra.