140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[18:12]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Það er merkilegt að lenda í þessari umræðu hér um Icesave þegar vilji einstakra þingmanna til að afgreiða það (Gripið fram í.) mál var staðfestur hér í atkvæðagreiðslunni. Það er auðvelt að fletta því upp. Ég nefndi þetta sem dæmi fyrir því að það væru full rök til þess að taka umræðu um það í þinginu hvort sú forsenda sem hér liggur fyrir og hefur verið gerð að umtalsefni dugi til þess að breyta hug sumra þingmanna, ekki allra, ég geri mér það fullljóst, auk þeirra tveggja sem landsdómur hafði vísað frá. Ég fór ekkert að velta mér upp úr því. Ég veit að hv. þingmaður er vel lesinn í tillögunni sem liggur fyrir. Þótt hv. þingmaður sé ekki sammála henni hlýtur hann að geta fallist á að ýmis efnisatriði hafa komið fram frá því að ákæran var samþykkt af þinginu sem hljóta í allri sanngirni að kalla á að þingið gefi sér einhverja daga til að ræða þetta.

Í því sambandi er rétt að nefna að á þessu blessaða máli hefur verið allnokkur fljótaskrift. Ég get ekki ímyndað mér að það eigi að taka hv. þingmann fremur en mig marga daga í senn að gaumgæfa þær ástæður sem raktar hafa verið í þeirri tillögu sem hér liggur fyrir, í máli sumra þingmanna sem hafa tjáð sig um málið og ekki síður tel ég að ákæran og ákæruvaldið í málinu hafi veikst til mikilla muna frá því að þetta var sett í gang. Ég tel fulla ástæðu til að gefa því gaum, ekki síst í ljósi orða hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra sem hann viðhafði hér og lýsti sig sammála því að Alþingi gæti hvenær sem gengið inn í þetta mál.