140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[18:14]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu formanns Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarna Benediktssonar, um að Alþingi afturkalli ákæru á hendur fyrrum forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins, Geir H. Haarde.

Ég vil taka fram strax í upphafi að ég tel að þessi málatilbúnaður, byggður á þeim rökstuðningi sem raun ber vitni í þessu máli, sé alvarlegt pólitískt inngrip í dómsvald í landinu og grafi undan trúverðugleika laga um ráðherraábyrgð sem kveða á um að ráðherrar í þessu landi skuli bera ábyrgð á embættisfærslum sínum eða vanrækslu í starfi. Ég vil færa rök fyrir þessari afstöðu.

Ákvörðun Alþingis, um að ákæra ráðherra fyrir embættisbrot eða athafnaleysi í embætti, setur af stað ferli þar sem skipaður er saksóknari, verjandi fyrir sakborning, einn eða fleiri, landsdómur er kallaður saman og tekur til starfa við meðferð málsins. Það hefur verið niðurstaða helstu lögspekinga í landinu að þar með sé málið komið úr höndum Alþingis. Prófessorarnir Bjarni Benediktsson, Ólafur Jóhannesson og Gunnar G. Schram voru sammála um að eftir að málshöfðun hefði verið samþykkt hefði hvorki sama þing né nýtt þing heimild til að afturkalla hana. Í sama streng tók Andri Árnason í tímaritsgrein árið 2009 en hann er nú verjandi fyrrverandi forsætisráðherra fyrir landsdómi. Þetta er niðurstaða þessara lögspekinga og um hana hefur ekki verið deilt fyrr en eftir að sú þingsályktun sem við ræðum hér var lögð fram.

Undanfarna daga og vikur hafa nokkrir lögfræðingar stigið fram og haldið fram hinu gagnstæða, að Alþingi geti þvert á móti stigið inn í málarekstur fyrir landsdómi og afturkallað ákæru í miðju ferli máls fyrir dómnum. Hér er mikilvægt að hafa í huga að álit lögmanna fyrr og nú hafa ekki gildi sem lög. Sömuleiðis er mikilvægt að halda því til haga að umræddir lögmenn hafa ekki fært fram sannfærandi rök fyrir því að Alþingi eigi að stíga með svo afdrifaríkum hætti inn í málið þó að þeir reyni að rökstyðja að Alþingi hafi heimild til að gera það.

Virðulegi forseti. Álit lögspekinga getur verið gagnlegt en mikilvægasta leiðsögnin felst að sjálfsögðu í lögunum sjálfum og þeim lögskýringargögnum sem þeim fylgja. Hér er rétt að taka fram að í lögunum um landsdóm er ekki að finna nein ákvæði um heimild til Alþingis að fella niður ákæru sem þingið hefur áður gefið út á grundvelli laga um ráðherraábyrgð. Hvergi í þeim lögum eða greinargerð sem fylgdi frumvarpinu á sínum tíma er vikið einu orði að þeim möguleika að Alþingi geti afturkallað ákæru á hendur ráðherra eftir að málarekstur er hafinn fyrir landsdómi. Hið sama á við um lögin um ráðherraábyrgð.

Hins vegar er í 51. gr. landsdómslaganna ákvæði þess efnis að beita megi ákvæðum laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, til fyllingar landsdómslögum, „um meðferð mála fyrir landsdómi“. Rétt er að taka fram að hvergi er þó í þeim lögum vísað til þess að það geti átt við um svo afdrifaríkan og veigamikinn gjörning sem afturköllun ákæru á hendur ráðherra fyrir landsdómi hlýtur að vera.

Í lögum um meðferð sakamála, nánar tiltekið 153. gr., segir, með leyfi forseta:

„Ákærandi getur allt fram til þess að dómur er upp kveðinn afturkallað ákæru sem hann hefur gefið út eða fallið frá einstökum ákæruatriðum.“

Ekki er getið um það í lögunum um meðferð sakamála hvaða aðstæður eða tilvik réttlæti afturköllun ákæru en þó má finna ákveðna vísbendingu í 1. mgr. fyrrnefndrar 153. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ákærandi getur breytt eða aukið við ákæru með útgáfu framhaldsákæru til að leiðrétta augljósar villur eða ef upplýsingar, sem ekki lágu fyrir þegar ákæra var gefin út, gefa tilefni til.“

Draga má þá ályktun af þessari málsgrein 153. gr. laganna að forsenda fyrir því að afturkalla megi ákæru á hendur ráðherra fyrir landsdómi hljóti að vera sú að ákæra hafi byggst á röngum upplýsingum eða fram hafi komið nýjar upplýsingar sem breyti forsendum ákærunnar í grundvallaratriðum. Þessa ályktun má meðal annars styðja með vísan í Handbók um meðferð opinberra mála sem dómsmálaráðuneytið gaf út árið 1992 en þar er fjallað um afturköllun ákæru út frá lögunum um meðferð opinberra mála, sem við þekkjum í dag sem lög um meðferð sakamála.

Þar er kafli um afturköllun ákæru þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ástæður afturköllunar geta verið margvíslegar. Má sem dæmi nefna að málsókn er háð kröfu brotaþola og hann fellur frá kröfu sinni, fram koma gögn sem sanna sakleysi sakbornings eða ákærandi telur að fram hafi komið gögn sem gefi tilefni til að fresta ákæru.“

Hér er rétt að taka fram að ekkert af þessu á við í því tilviki sem hér um ræðir. Hvergi hefur komið fram að ákæra hafi byggst á röngum upplýsingum, engin gögn sem sanna sakleysi sakbornings, heldur ekki að fram hafi komið nýjar upplýsingar sem breyti forsendum ákærunnar í grundvallaratriðum. Það er því mín niðurstaða að sú tillaga sem við ræðum hér í dag feli í sér óeðlilegt inngrip Alþingis í framgang dómsmáls sem er til meðferðar í réttarkerfinu og þingið mundi með samþykkt tillögunnar taka sér stöðu sem ekki er í samræmi við fyrirmæli stjórnarskrárinnar um aðgreiningu löggjafarvalds og dómsvalds.

Virðulegi forseti. Ég tel að það sé ekki tilviljun eða yfirsjón af hálfu löggjafans á sínum tíma að ákvæði um afturköllun máls sem rekið er fyrir landsdómi er ekki að finna í lögunum um landsdóm. Ég tel að það eigi einmitt mjög gildar skýringar, nefnilega þær að inngrip Alþingis í málarekstur fyrir landsdómi, sem ekki byggir á því að fram hafi komið nýjar upplýsingar sem kollvarpi forsendum ákærunnar, hafi þær afleiðingar að grafa undan landsdómi, grafa undan lögunum um ráðherraábyrgð og vega alvarlega að því grundvallarmarkmiði laganna að ráðherrar eigi að bera ábyrgð á embættisfærslum sínum.

Setjum nú sem svo að Alþingi, sama þing eða nýtt þing, sem gaf út ákæru upphaflega, gæti án nokkurra takmarkana afturkallað ákæru á hendur ráðherra eftir að málið er komið fyrir landsdóm og málarekstur hafinn. Hvaða stöðu mundi það gefa lögunum um ráðherraábyrgð og lögunum um landsdóm? Það mundi gefa þingmönnum eða þingflokkum færi á að koma með tillögur um afturköllun ákæru hvenær sem það hentaði þeirra pólitísku hagsmunum og þannig grafa undan trúverðugleika landsdóms og lögunum um ráðherraábyrgð.

Til dæmis er auðvelt að sjá fyrir sér að við meirihlutaskipti að loknum þingkosningum gætu pólitískir samherjar ráðherra sem ákærður er fyrir landsdómi ákveðið að leysa flokksfélaga sinn undan ábyrgð með þingmáli af því tagi sem við ræðum hér í dag — án þess að sýnt hafi verið fram á að ákæran hafi byggst á röngum upplýsingum, án þess að sýnt hafi verið fram á að villur hafi verið í framsetningu og innihaldi ákærunnar og án þess að fram hafi komið nýjar upplýsingar sem breyti í meginatriðum forsendum ákærunnar. Þar með væri grundvellinum kippt undan trúverðugleika ráðherraábyrgðar í okkar stjórnskipan og engin leið að tryggja að ráðherrar yrðu látnir svara til saka fyrir brot á lögum um ráðherraábyrgð. Þá væri heiðarlegast af þinginu að fella einfaldlega úr gildi lögin um ráðherraábyrgð, að minnsta kosti 2. gr. laganna sem segir að ráðherra megi krefja ábyrgðar fyrir sérhver störf eða vanrækslu starfa, ef sýnt er að hann hefur annaðhvort af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi farið í bága við stjórnarskrá lýðveldisins, önnur landslög eða að öðru leyti stofnað hagsmunum ríkisins í fyrirsjáanlega hættu.

Hér kristallast alvarleiki þessa máls sem mikilvægt er að við höfum í huga í dag þegar við ræðum þessa tillögu um afturköllun ákærunnar og inngrip í störf landsdóms á þeim forsendum sem er að finna í rökstuðningi flutningsmanns.