140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[18:24]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir þetta andsvar og hann kemur reyndar inn á þrjú stórmál sem erfitt er að svara á tveimur mínútum. En það er mikilvægt sem hann nefnir varðandi þrískiptingu valdsins og hlutverk Alþingis í þessu máli. Það deilir enginn um það að Alþingi er ákæruvaldið í málinu og hefur þar af leiðandi ákveðið hlutverk samkvæmt landslögum. Hins vegar er það þannig að þegar málið er komið fyrir landsdóm og málarekstur er hafinn tel ég einsýnt, af skoðun þeirra laga sem gilda í þessu tilviki, að afar rík rök þurfi að vera fyrir því að Alþingi grípi inn í málareksturinn og það hljóti að þurfa að snúast um að nýjar upplýsingar hafi komið fram eða að ákæran hafi í byrjun hreinlega byggst á röngum upplýsingum, að hún hafi verið rangt sett fram.

Trúverðugleiki landsdóms er í veði, segi ég og rökstyð það með því að ég tel að ef Alþingi stígur hér inn í málið á þessu stigi, með rökstuðningi sem ekki er sterkari en raun ber vitni, séum við að segja að Alþingi sé hvenær sem er tilbúið til að hafa áhrif á gang mála fyrir landsdómi og þar af leiðandi erum við að rýra mjög trúverðugleika bæði dómsins og þess sem verra er, hugmyndarinnar í stjórnskipun okkar um ráðherraábyrgð. Það er kannski það alvarlegasta í málinu öllu. Ég tel að við getum ekki treyst því að lögin um ráðherraábyrgð haldi ef við sem þing erum tilbúin að grípa inn í mál án þess að fyrir liggi að fram hafi komið nýjar alvarlegar upplýsingar sem kollvarpi grundvellinum undan upphaflegri ákæru.