140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[18:27]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður bendir á það sem margir hafa komið inn á í umræðunni og það er að afstaða einstakra þingmanna sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni á sínum tíma hafi breyst. Um það er ekki deilt. Það er augljóst af yfirlýsingum þeirra einstaklinga. En ég tel að það sem mestu máli skipti, þegar við veltum fyrir okkur hvort málefnalög rök séu fyrir því að Alþingi stígi inn í málið á þessum tímapunkti, sé hvort eitthvað hafi breyst í þeim ákæruatriðum sem ákæran er byggð á á sínum tíma. Það er það sem málið fyrir landsdómi snýst um, ekki hvort menn halda sig fast við þá afstöðu sem þeir höfðu til ákæru á hendur einstaklingum á sínum tíma eða ekki. Það getur breyst í hverri viku, í hverjum mánuði í hinum og þessum málum eins og við þekkjum. En ég kannast ekki við að við höfum brugðist við því með því að taka inn mál aftur hér á þingi og hefja aftur umfjöllun um málið og greiða um það atkvæði. (Gripið fram í.)