140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[18:32]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg ljóst að við höfum mjög mismunandi sjónarhorn hvað þetta mál varðar. Þegar upp er staðið tel ég að við getum ekki litið fram hjá vissum þáttum, við erum ósammála um ákveðin atriði tillögunnar. (Gripið fram í.)

En ég ítreka það sem ég sagði áðan. Þetta snýst um mannréttindi eins manns, einstaklings sem á sama rétt og allir aðrir sakborningar í þessu landi til þess að hljóta og njóta réttlátrar málsmeðferðar. Það er það sem við erum að biðja um.

Af hverju getum við ekki rætt þann efnislega ágreining sem er á milli þeirra sem vilja keyra málið í gegn, hvort sem það er út frá pólitískum forsendum eða einhverjum öðrum forsendum, og okkar hinna sem teljum réttmætt að fara yfir málið aftur af því að það hefur ýmislegt komið fram, ekki bara það að Hæstiréttur hafi staðfest neyðarlögin, ekki bara það að við sjáum hver þróunin er í Evrópu. Efnahagsmálin í Evrópu hafa þróast með þeim hætti sem raun ber vitni og engum dettur í hug, hvorki í Grikklandi né á Spáni, að draga Papandreou eða Zapatero fyrir rétt þrátt fyrir ástandið þar sé mun verra en það var á haustmánuðum 2008 á Íslandi. Af hverju getum við ekki rætt málið og farið yfir það? Hvað hræðast menn? Þetta er ekki inngrip í dómsvald, það er ekki um það að ræða því að við erum ákæruvaldið. Ekki gleyma því.

Þess vegna segi ég: Hver á að njóta vafans í allri málsmeðferð ákæruvaldsins? Hver er það sem á að njóta vafans hverju sinni? Það er að sjálfsögðu sakborningur hverju sinni.