140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[19:15]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum áfram tillögu hv. þm. Bjarna Benediktssonar, tillögu til þingsályktunar um afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Það hefur verið athyglisvert að hlýða á ræður þingmanna hér í dag, sem mér finnst í rauninni hafa dregið enn frekar fram þá nauðsyn að fá tækifæri til þess að ræða efnislega tillöguna sem um ræðir — að ekki verði komið í veg fyrir það og með einhverjum bellibrögðum verði málinu hugsanlega vísað frá. Það má ekki gerast. Við umræðuna — ég hef hlustað á flestallar ræður hér í dag — hefur það að mínu mati frekar undirstrikast að tilefni er til að fara efnislega yfir málið aftur, skoða forsendur málsins, ekki síst með tilliti til þess að við erum ekki að tala um einhvern hlut hér innan húss eða úti í bæ heldur mannréttindi einstaklings og hlutverk Alþingis að vera ákæruvaldið í svona máli. Það verðum við að taka alvarlega.

Hefur Alþingi þetta vald? Nokkrir hafa efast um það. Þeir eru þó fleiri, meira að segja þeir sem eru á því að halda eigi áfram með málið, sem eru nokkurn veginn sammála um það að Alþingi hafi þetta vald. Alþingi er með ákæruvaldið. Við gegnum ekki hefðbundnu löggjafarhlutverki okkar sem slíku núna, heldur förum við yfir þætti ákærunnar gagnvart Geir Hilmar Haarde sem ákæruvald.

Þá er spurt: Er verið að grípa inn í dómstólaferlið? Ég segi: Nei, það er ekki verið að gera það. Miklu frekar er Alþingi að uppfylla þær skyldur sem á herðar þess er lagt, að fylgja eftir þeim grunnreglum sem við höfum mótað og myndað og samþykkt á þinginu til þess einmitt að stuðla að því að vernda réttarríkið, stuðla að því að gæta þess að við uppfyllum reglur mannréttindasáttmála og styðjum við nýlegar breytingar, breytingarnar frá 1991 á sakamála- eða refsiréttarlögum sem síðar var breytt 2008 í sakamálalög. Þar undirstrikast svo margar reglur sem landsdómur styðst meðal annars við í réttarhaldi sínu varðandi það hvernig málið hefur verið rekið og mun væntanlega halda áfram á þeim forsendum ef þessi tillaga verður ekki tekin til umfjöllunar.

Grundvöllur landsdóms í dag er sakamálalöggjöfin. Þar er skýrt tekið fram að ákæruvaldið getur á hvaða stigi sem er farið betur yfir málið með tilliti til réttarstöðu sakbornings, hvort þær forsendur séu enn til staðar að meiri líkur séu en minni á að sakborningur verði sakfelldur. Þetta er grundvallarbreyting á íslensku réttarfari síðan Ólafur Jóhannesson og Bjarni Benediktsson settu fram fræðikenningar sínar. Til viðbótar hefur verið kallaður til Andri Árnason hæstaréttarlögmaður sem er einn þeirra sem vita hvað mest um landsdóm og hefur yfirgripsmikla þekkingu á landsdómsmálinu. Ef menn tjalda honum hér sem talsmanni þess að ekki megi taka þetta mál fyrir, af hverju fáum við hann þá ekki á fund þingsins? Af hverju fjallar ekki þingið einmitt um þetta atriði frá þeim eina manni sem þeir sem vilja halda áfram með landsdómsmálið vilja benda á? Það er alveg ljóst þegar maður les það sem Andri skrifar og þau viðtöl sem hafa verið tekin við hann, til að fá betri útskýringar á ritum hans, að hann hefur alltaf sagt að þingið geti alltaf komið með tilmæli til saksóknara um að kalla málið formlega til baka. Það liggur ljóst fyrir. Þingið getur og hefur þann rétt að breyta eða afturkalla ákæru.

Ég hvet þingmenn til þess að nýta tækifærið og fá þá mörgu fræðimenn sem hafa tjáð sig um málið á fund. Það er ekkert óeðlilegt að á þessum tímum þegar þetta einstæða mál á sér stað komi menn fram og sýni í fræðiritum og fræðiskrifum sínum af hverju það er mikilvægt og nauðsynlegt að þingið hafi þessa heimild til afturköllunar.

Ég vil fá að vitna til forseta lagadeildar Háskóla Íslands sem að mínu mati hefur verið vegið ómaklega að í dag, ásamt öðrum fræðimönnum sem hafa tjáð sig, leyft sér að tjá sig um þetta mál — og þá, bingó, viti menn, það er farið beint í manninn, ekki boltann. Ég vil fá að vitna í það sem Róbert Spanó segir skýrt, með leyfi forseta:

„Ákærandinn í máli fyrrverandi forsætisráðherra er Alþingi samkvæmt 14. gr. stjórnarskrárinnar. Alþingi hefur því skýra lagaheimild til að afturkalla málshöfðun á hendur fyrrverandi forsætisráðherra.“

Alveg skýrt, alveg á tæru.

Síðan vil ég halda áfram og vitna í Stefán Má Stefánsson. Það hefur reyndar verið gert þannig að ég geri bara stuttlega grein fyrir hans orðum. Hann segir í niðurlagi sinnar greinar, með leyfi forseta:

„Af framansögðu má leiða líkum að því að umrædd málsmeðferð Alþingis hafi í þýðingarmiklum atriðum vikið frá almennum og viðurkenndum reglum um höfðun sakamála. Sé það rétt dregur það mjög úr trúverðugleika ákærunnar.“

Ég trúi því ekki að þingmenn vilji ekki láta á það reyna að fá þessa fræðimenn til liðs við sig, þar á meðal þann fræðimann sem hefur heldur betur reynst okkur betri en enginn í Icesave-deilunni, Stefán Má Stefánsson. Ætla menn ekki að hlusta á svona menn? Nei, þá er í lagi að skauta yfir það sem þeir segja. Ætlar ákæruvaldið, Alþingi, alþingismenn, að láta þetta í léttu rúmi liggja? Ég segi nei.

Síðan vil ég vitna í Ragnar Hall þar sem hann bendir á mjög athyglisverðan hæstaréttardóm frá 2009 sem er í rauninni alveg makalaust að menn hafi ekki farið betur yfir. Hann bendir á að fjórir einstaklingar voru ákærðir, þrír fyrir skattalagabrot og einn endurskoðandi. Þessir þrír voru með varakröfu sem frávísun en ekki endurskoðandinn. Máli þessara þriggja var vísað frá en máli endurskoðandans haldið áfram af því hann var ekki með frávísunarkröfu. Síðan fór málið áfram til Hæstaréttar. Hvað gerði ákæruvaldið? Það féll frá ákærunni af því að það taldi ekki rétt að halda málinu áfram gegn honum einum. Ragnar Hall segir, með leyfi forseta:

„Nú er alveg sérstakt tilefni fyrir Alþingi til að taka nýja ákvörðun – mikilvægum þáttum ákærunnar í málinu hefur verið vísað frá vegna gallaðs málatilbúnaðar.“

Síðan koma menn hér í dag og segja: Það sem landsdómur hefur vísað frá skiptir ekki miklu máli, það er ekki stór partur ákærunnar. Að sjálfsögðu er það það. Það var veigamesti þátturinn og það eru ekki bara sjálfstæðismenn sem segja það heldur fræðimenn sem okkur ber að hlusta á og við höfum sem betur fer hlustað á í ákveðnum þjóðhagslega mikilvægum málum. Okkur ber skylda til að hlusta á þá og fá að minnsta kosti tækifæri til þess að fara yfir orð þessara manna.

Það er alveg skýrt og ég hef alla tíð haft þá skoðun að engin sök lá hjá þeim fjórum ráðherrum sem um ræðir, ég er sannfærð um það, en ekki síður að málið lyktaði í meira lagi af pólitískum réttarhöldum og pólitískum ákærum.

Nú erum við komin þetta langt. Það er búið að samþykkja þetta. Ég verð að horfast í augu við þann veruleika. Hvað gerum við þá? Við förum aftur málefnalega yfir málið af því það snýst um mannréttindi. Ég hef alltaf sagt að þetta sé fyrst og fremst mannréttindamál. Þannig nálguðumst við sjálfstæðismenn málið allan tímann. Við fórum ekki í einhvern skollaleik, hráskinnaleik, eins og ýmsir aðrir þingmenn, ekki síst innan Samfylkingar. Mér fannst miður að horfa upp á það. Staðan er sú að málið var samþykkt, en þá komum við aftur með málefnalegar tillögur.

Forsendubreytingar hafa orðið. Stórir ákæruliðir eru farnir frá málinu. Neyðarlögin voru í millitíðinni staðfest. Menn skulu ekki skauta yfir það og segja að það hafi bara verið sjálfsagt að samþykkja neyðarlögin. Þau voru einu sinni þannig að meira að segja hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra treysti sér ekki til þess að styðjast við neyðarlögin sem er okkar helsta haldreipi í dag í málaferlunum vegna Icesave-samninganna. Þetta eru veigamiklar forsendur fyrir Alþingi sem ákæruvald til að fara betur yfir málið.

Ég nefndi það áðan í andsvari að síðan hrunið varð hér 2008 sjáum við t.d. allt aðra þróun en við héldum að yrði í Evrópu. Mér þykir það sárt sem talsmanni þess að vilja klára aðildarferlið við Evrópusambandið að sjá hvernig Evrópa er leikin, en þannig er það nú bara. Erum við að sjá Papandreou eða Zapatero dregna fyrir dóm af því ástandið þar er miklu verra en það hefur verið hér á landi? Nei, þetta voru pólitískar ákvarðanir. Við skulum taka umræðuna á pólitískum vettvangi. Það hefur verið gert og það á að gera en ekki færa þetta allt saman inn í réttarsalinn.

Ég gæti sagt svo miklu meira. Ég vil þó nefna að menn hafa talað um að þrígreining ríkisvaldsins verði að njóta vafans. Hér er ekki um hefðbundna þrígreiningu ríkisvaldsins (Forseti hringir.) að ræða. Hér verður Alþingi að uppfylla þau skilyrði og þau lög sem því eru sett á herðar með því að fylgja eftir ákæruvaldi sínu. Sá sem á að njóta vafans hér í dag er sakborningur, (Forseti hringir.) það er Geir Hilmar Haarde. Hann á að njóta sama réttar og aðrir sakborningar í landinu, annars erum við illa stödd.