140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[20:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég hélt ræðu fyrir stuttu um þetta mál og náði þá ekki alveg að klára allt það sem ég ætlaði að segja og ætla að bæta hér úr.

Í fyrsta lagi er ljóst að þetta eru pólitísk réttarhöld. Það hefur verið ljóst alveg frá upphafi, það þarf ekki annað en skoða umgjörðina að því máli til að sjá að þetta eru pólitísk réttarhöld. Þeir sem ákæra eru stjórnmálamenn. Þannig að það getur ekki annað verið en þeir ákæri út frá stjórnmálalegum sjónarmiðum. Þeir kjósa meira að segja dóminn, átta af 15 dómendum eru kosnir af Alþingi. Uppruni málsins er pólitískur og ferillinn er að einhverju leyti pólitískur líka. Fyrir utan það er það náttúrlega þannig vaxið, með bæði ákærða og allt málið í heild sinni, að verið er að fjalla um pólitískar ákvarðanir og pólitískar gerðir eða aðgerðaleysi. Í því felst að þetta eru pólitísk réttarhöld og verða það.

Ég tek því undir það sem hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, sagði á vefsíðu sinni 2001. Þá þegar sá sú ágæta kona að lög um landsdóm væru úrelt og hefðu ekki fylgt þeirri framþróun sem orðið hefði í dóms- og réttarkerfinu. Þetta segir hún á vefsíðu sinni 2001. Ég legg til, herra forseti, að Alþingi taki sér tak og afnemi lögin um landsdóm svo að við lendum ekki í svona slysi aftur.

Ekki hefur mikið verið rætt um tillögu til rökstuddrar dagskrár — það þarf víst ekki samþykki Alþingis til að leggja slíka tillögu fram, og hefur það verið rætt hér nokkuð í dag. Ég ætla að koma inn á það.

Þar stendur, með leyfi herra forseta, í fyrsta liðnum:

„Alþingi fer með ákæruvald í málum vegna embættisbrota ráðherra. Ákvörðun þess sem fer með almennt ákæru- eða saksóknarvald um að fella niður ákæru verður að byggjast á málefnalegum rökum.“

Það er einmitt það sem menn hafa komið inn á. Sá sem tók ákvörðun, þ.e. Alþingi sjálft — af þeim hafa þó nokkuð margir bakkað frá þeirri ákvörðun. Þeir hafa jafnvel sagt að um sé að ræða mistök og nefni ég þar til sögunnar hv. þm. Atla Gíslason sem sagði að það hefðu verið mistök hjá sér að einn af fjórum var ákærður en ekki allir, hann hefði aldrei séð það þannig fyrir sér. Hæstv. innanríkisráðherra Ögmundur Jónasson er sömu skoðunar, að þarna hafi ýmislegt komið í ljós og hann mundi ekki greiða atkvæði með þessu núna.

Þannig að ákærandinn, Alþingi sjálft, hefur skipt um skoðun. Meiri hluti virðist vera fyrir því að ákæra ekki. Þegar svoleiðis gerist, sérstaklega þar sem um er að ræða pólitísk réttarhöld, er ekki seinna vænna að tala um að forsendur hafi breyst, þegar ákærandinn sjálfur skiptir um skoðun.

Svo hefur náttúrlega fjöldi mála sýnt að það sem hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, var ákærður fyrir hefur sýnt sig í öðrum löndum að hafa verið alger markleysa.

Írland gerði þau mistök að samþykkja kröfur á bankana sem hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra stóð þvert gegn. Það mun svo sýna sig að neyðarlögin — sem hann keyrði í gegn, fyrir utan það að hann stóð fyrir því að leggja fram frumvarp um rannsóknarnefnd Alþingis — sem Hæstiréttur hefur sýnt fram á að hafi átt rétt á sér, hafa afstýrt alveg gífurlegum hörmungum.

Ég er ekki viss, herra forseti, um að menn átti sig á því hvað það hefði þýtt að við hefðum ekki getað borgað lengur með kreditkortinu okkar. Með hverju hefðum við þá borgað? Ef greiðslukerfið hefði hrunið og við hefðum ekki haft neitt til að borga með, hvað hefðum við þá gert? Allur innflutningur hefði stöðvast á sama augnabliki. Ég lofa því. Enginn hefði farið að senda vörur eða annað til Íslands sem væri orðið gjaldþrota. Það hefði allt stöðvast. Eftir þrjár vikur eða fjórar hefði landbúnaðurinn stöðvast. Sjávarútvegurinn, að ná í fisk í soðið — menn geta ekki lengur róið með árum, það þarf alltaf olíu. Þannig að það hefði allt stöðvast.

Ég held að þegar fram í sækir og þegar aðrar þjóðir fara að skoða þetta — hversu mikið við erum við háð greiðslukerfum nútímans — muni það verða ljóst að það sem fyrrverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, gerði var afrek en ekki ástæða til að ákæra hann einan af öllum.

Svo vil ég taka undir það að það að ákæra hann og dæma leysir ekkert þann vanda (Forseti hringir.) sem tengist hruninu.