140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[20:21]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Forseti. Fyrir þremur árum brunnu í brjósti margra Íslendinga bæði sárindi og reiði en jafnframt vonir og væntingar. Vonir um að nú mundu hlutirnir breytast og okkur tækist að byggja upp betra og sanngjarnara samfélag.

„Hvað er þá orðið okkar starf? — Höfum við gengið til góðs?“

Ég er þeirrar skoðunar að við séum mjög langt frá því að hafa í raun og sann gert upp hrunið, lært af því, breytt og bætt það sem á hefur verið bent. Við erum enn að kafna í sömu gömlu vinnubrögðunum, áherslunum og nálguninni og á ýmsan hátt að endurreisa sama gamla pukrið, sömu valdaklækja-, hótana- og klíkupólitíkina og sama gamla fjármagnskerfið sem vinnur gegn almenningi, svo eitthvað sé nefnt.

Það þýðir ekki að ég hafi gefið upp trúna á íslenskt samfélag og möguleika þess til endurreisnar, langt í frá. Samfélagið er sem betur fer miklu fjölbreyttara og merkilegra en stjórnmálamenningin sem það býr við. Pólitíkin brást fyrir hrun og hún hefur brugðist eftir hrun. En ég efast ekki um að enn sé hægt að gera upp fortíðina með róttækum hætti sé fyrir því vilji, enn sé hægt að læra og byggja upp betra og opnara samfélag sem getur búið komandi kynslóðum uppbyggilegt umhverfi.

Eitt er hins vegar víst: Við getum ekki og megum ekki byggja uppgjör við óréttlæti fortíðar á því að hunsa grunngildi réttarríkisins og láta tilganginn helga meðalið.

Grunngildin eru meðal annars þau að okkur ber skylda til að gæta fyllsta jafnræðis milli hugsanlegra sakborninga og horfa til samhengis hlutanna. Hvorki stjórnmálaskoðanir, persónuleg tengsl né duttlungar mega ráða. Niðurstöður mega ekki vera tilviljanakenndar. Þær verða að vera í samræmi við yfirvegað mat og vilja ákærandans.

Nú er hávær krafa uppi um það víða í samfélaginu að það verði að leiða Geir Haarde til saka þar sem einhver verði einfaldlega að bera ábyrgð. Ég er sammála því að það eru ömurleg skilaboð út í samfélagið að enginn beri neina ábyrgð á nokkrum sköpuðum hlut. Þeim skilaboðum verðum við að breyta með því að taka til gagngerrar skoðunar hvernig fólk axlar ábyrgð í okkar samfélagi almennt. En það skiptir máli að við berum okkur rétt að, að við réttlætum ekki óréttlæti með nýju ranglæti.

Sagt er að það sé þess virði að láta einn mann ganga til dóms til að fá upplýsingar upp á borðið.

Ég tek undir að allt þarf upp á yfirborðið. Það er hægt að gera með öflugum hætti. Spurningin er hvort það sé það sem stjórnmálastéttin vill yfir höfuð. Eða hvort hún vilji helst að Geir Haarde leiði burt syndir stjórnmálanna. Svo mikið er víst að hvergi í réttarríki er það viðurkennd aðferðafræði að brjóta eigi jafnræðisreglu og taka einn einstakling út úr hópi hugsanlegra sakborninga eða leiða hann fyrir dóm til þess að fá upplýsingar upp á borð.

Annað sem tínt er til í röksemdum í málinu er að það sé bara jákvætt fyrir Geir Haarde að ganga þessa leið, því þá geti hann hreinsað sig af sökum með sýknun. Þetta viðhorf gengur einnig gegn frumskyldum ákæruvalds sem getur ekki tekið sér leyfi til að senda mann til dóms á slíkum forsendum.

Það er hins vegar fjarstæðukennt í mínum huga að telja að með sýknudómi sé úrskurður sögunnar kominn um að Geir Haarde hafi enga ábyrgð borið í aðdraganda hruns. Hann og margir fleiri hljóta að bera ábyrgð sem persónur og leikendur í þeirri atburðarás sem undan verður ekki vikist. Við stöndum hér og nú í leikhúsi þeirra persóna og leikenda.

Nú fyrir jólin var haft eftir þingmanni að ef fallið yrði frá ákæru á Geir Haarde jafngilti það því að setja rannsóknarskýrslu Alþingis í tætarann. Þessi ummæla segja í raun allt sem þarf um það hvernig þessi ákæra á hendur Geir Haarde er túlkuð, hvaða fölsku vonir og væntingar eru skapaðar hjá fólki með þessu landsdómsmáli. Hrun sem átti sér langan, fjölþættan og víðfeðman aðdraganda og orsakir er sett á einn mann. Ef þessi maður er ekki látinn svara til saka er sagt: Þá er ekki verið að horfast í augu við það sem hér gerðist.

Það er á vissan átt erfitt að lýsa því hversu mjög ég er ósammála þeirri nálgun, þessari sýn á það sem uppgjör heillar þjóðar krefst af okkur. Því er haldið fram að þetta sé uppgjör við stjórnmál hrunáranna. Þau sem kynna sér málið og ákærurnar sem eftir standa af sanngirni sjá að slík túlkun er sjónarspil. Ákæruliðirnir taka aðeins til átta mánaða og mjög afmarkaðra þátta í störfum eins manns. Ábyrgðin á því að gera Ísland að spilavíti, einkavæða auðlindir og fjármálakerfi, opna fyrir einkavinavæðingu, hún verður ekkert til umræðu við réttarhöldin í Þjóðmenningarhúsinu. Um þá stefnu og þá atburðarás verður ekkert rætt.

Mín sýn og nálgun á heiminn hrópar að eitthvað sé mikið að þegar kerfisbundið óréttlæti, kerfisbundið arðrán og kerfisbundin múgsefjun, kerfisbundið rotspillt alþjóðakerfi fjármagnsins og þeirra stjórnmála sem hún byggir á, eigi að fá einhvers konar syndaaflausn í einum manni. Þá verða hin raunverulegu viðfangsefni, hin raunverulegu vandamál og átakaefni að einhvers konar mistökum eða yfirsjón eins einstaklings. Uppgjörið við óréttlætið allt þarf að snúast um svo langtum meira og hefur meðal annars með rótgróna menningu og grundvallarviðhorf að gera nú í dag rétt eins og fyrir nokkrum árum síðan. Það hefur einnig með marga einstaklinga að gera, marga, en ekki bara einn.

Svo virðist sem lærdómurinn sem margir hafa kosið að draga af hruninu sé besta í falli að skapa ný formerki fyrir sömu vinnubrögðin. Menn tala um siðbót en stunda siðleysi.

Skýrsla þingmannanefndarinnar fjallar um nauðsyn breyttra og bættra vinnubragða til framtíðar. Staðreyndin sem við blasir er hins vegar sú að við höfum litlu sem engu breytt hvað varðar vinnubrögð okkar og nálgun á hin pólitísku viðfangsefni. Hvað skyldu ákærendur hér á Alþingi segja um okkar eigin vinnubrögð, skyldu þau standast skoðun? Ég ætla að hlífa okkur við að nefna dæmin en svar mitt er að þau standist ekki skoðun. Ég sé ekki í verki lærdóma okkar af hruninu.

Verst er þó hræsnin. Hún verður hrópandi augljós þegar málin eru skoðuð í sögulegu ljósi, þegar horft er til þess að ráðherra í núverandi ríkisstjórn sem jafnframt var ráðherra í hrunstjórninni berst með hótunum fyrir því að koma í veg fyrir að þessi tillaga fái eðlilega þinglega meðferð. Það er eins og allt sé nú gleymt.

Ég spyr: Er rétt að þurrka út úr sögulegri vitund okkar að núverandi forsætisráðherra var í ráðherranefnd um ríkisfjármál í ríkisstjórn Geirs Haardes í aðdraganda hrunsins — á þeim tíma sem ákært er fyrir? Aðrir samráðherrar hrunstjórnarinnar eru í núverandi ríkisstjórn. Enn aðrir eru í feitum embættum og við trúnaðarstörf, bæði hér á landi og erlendis í boði núverandi ríkisstjórnar. Það er siðlaust að mínu mati að leiða einn mann fyrir dóm á meðan aðrir þeir sem hlut eiga að máli gera það gott, jafnvel í boði sjálfs ákæruvaldsins. Eða eru jafnvel ákæruvaldið sjálft.

Í þeim pólitíska hráskinnaleik að afneita fortíðinni virðast sumir ekki kannast við það að hafa nokkurn tímann komið nálægt því að sitja í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. En því miður er það svo að Geir Haarde getur ekki borið í burtu syndir fortíðar Sjálfstæðisflokksins og hann getur heldur ekki borið í burtu pólitískar syndir fortíðar Framsóknarflokks og Samfylkingar. Slíkt uppgjör á ekki síður að snúast um stjórnmálastefnu, menningu, viðhorf, hjarðhegðun, vinnubrögð, nálgun og margt fleira. Staðreyndin er einnig sú að Geir Haarde getur ekki borið í burtu syndir Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í núverandi ríkisstjórn eða með hvaða hætti við höfum gengið fram þvert á svo margt sem við sögðumst standa fyrir.

Við þurfum sem þjóð að gera bæði fortíð og nútíð upp en það er ekki sama hvernig við gerum það. Við getum litið til annarra þjóða þar sem vel hefur til tekist í þessum efnum. Ég get ekki litið á það sem sanngjarnt eða rétt að ganga fram með þeim hætti sem kom í ljós við atkvæðagreiðslu þessa máls strax í upphafi. Það er að mínu mati ósanngjarnt og rangt. Á ósanngirni og rangindum megum við ekki byggja uppgjör, hvað þá endurreisn til framtíðar.

Ég sé, forseti, að tími minn er nú útrunninn. Ég hef meira að segja og bið um að fara aftur á mælendaskrá til að ljúka ræðu minni.