140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[20:36]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að tala skýrt um skoðanir sínar í þessu efni. Ég get þó ekki tekið undir þau sjónarmið sem hann teflir fram til rökstuðnings máli sínu. Það sem hv. þingmaður sagði í ræðu sinni var að Alþingi gæti ekki átt frumkvæði að því að draga til baka ákæruna og að ákæruvaldið, eftir að niðurstaða þingsins lægi fyrir, væri farið yfir til framkvæmdarvaldsins. Þá vaknar sú spurning: Telur hv. þingmaður að það sé þá saksóknarans að kalla ákæruna til baka? Eða er ómögulegt að kalla ákæruna til baka?

Í þessu sambandi er nauðsynlegt að hafa í huga það sem landsdómur sjálfur hefur nú þegar sagt um þessi efni. Landsdómur sagði í úrskurði sínum frá því í haust, með leyfi forseta:

„Sá sem Alþingi kýs til að sækja málið af sinni hálfu, eftir að það hefur tekið ákvörðun um að ákæra, hefur ekki forræði á því hvers efni ákæran er sem hann gefur út í málinu.“

Síðan segir í úrskurðinum í framhaldinu að hann geti hvorki takmarkað né aukið við ákæruatriðin.

Þannig að spurning mín snýr að því: Er það þá skilningur hv. þingmanns að það sé einungis um afturköllun ákærunnar í heild sinni sem saksóknari Alþingis hafi fullt forræði þar sem hann hefur komist að þeirri niðurstöðu að það hvíli ekki hjá þinginu?