140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[20:39]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þessi túlkun hv. þingmanns gengur á skjön við nýleg skrif prófessors Róberts Spanós sem telur að Alþingi geti einmitt haft þetta frumkvæði. En látum það liggja milli hluta hvort það er prófessorinn eða hv. þingmaður sem hefur rétt fyrir sér. Ef það er rétt hjá hv. þingmanni að saksóknari einn geti átt frumkvæðið, liggur það að minnsta kosti fyrir að hann getur ekki takmarkað ákæruatriðin nema leita fyrst til þingsins. Það gæti þá leitt til þeirrar niðurstöðu, ef við gæfum okkur, eins og á við í þessu máli, að mörg ákæruatriði séu undir í einu máli — segjum að þau væru tíu — að saksóknari Alþingis mætti fella niður níu af tíu ákæruatriðum, en hann mætti bara ekki fella niður öll. Það er þetta sem mér finnst ekki standast skoðun við þessa nálgun.

Ef menn eru þeirrar skoðunar að hægt sé að takmarka ákæruatriðin svo mjög að það standi nánast ekkert eftir af málinu, ríði það baggamuninn að það séu bara ekki öll atriðin sem tekin eru út. Þetta finnst mér málflutningur sem stenst ekki skoðun.