140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[20:42]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Tíminn er naumur, en ég ætla að ljúka ræðu minni og spyrja: Hver er leiðin fram á við?

Hér gefst ekki tími til að velta því öllu við, en ein leið er að setja á stofn sannleiksnefnd sem taki meðal annars að sér ítarlegar og víðtækar opnar vitnaleiðslur, ekki bara ráðherra og þingmanna heldur embættismanna og fleiri sem að málum komu — nefnd sem sé ætlað að leiða í ljós allan sannleikann, en ekki yfirborð afmarkaðs tíma, afmarkaðra þátta sem varða störf aðeins eins manns. Lærdómurinn yrði þá vonandi vegvísir inn í nýja framtíð. Spurning er hins vegar hvort fólk sé yfir höfuð tilbúið til að læra nokkurn skapaðan hlut eða finnist meira um vert að finna sökudólg og hvítþvo eigin aðkomu.

Ég veit að margir hugsa mér þegjandi þörfina fyrir afstöðu mína. Heitingar og formælingar bera þess glöggt vitni, enda til mikils að vinna í hinum pólitíska skollaleik. Látið er að því liggja að ég sé komin í lið með hrunverjum og beri ábyrgð á því að uppgjör fari ekki fram.

Afstaða mín í þessu máli hefur reyndar ekkert breyst. Um það geta vitnað aðrir þingmenn sem ég talaði við strax að lokinni atkvæðagreiðslu þingsins í þessu máli og lýsti fullkominni vanþóknun minni á niðurstöðunni. Sú afstaða hefur ekkert breyst. Hún stendur. Ég tek ábyrgð mína sem ákæruvald alvarlega, burt séð frá öllum hótunum og svívirðingum.

Þegar Alþingi hafði allar forsendur til annars sýndi það grímulaust fram á að það hafði ekki burði til að takast á við mál af tagi sem hér er til umræðu. Niðurstaðan varð afmyndun á réttarríkinu. Ætlum við að breyta rétt, eða ætlum við að breiða yfir mistök með því að láta óátalið hvernig Alþingi hefur brotið gegn skyldum sínum sem ákæruvald? Á ósanngirni að afmá sporin?

Það að láta eins og ekkert hafi í skorist í þessu máli og hér hafi eðlilega verið búið um hnúta er merki um niðurlægingu þings frekar en endurreisn þjóðar. Ef við byggjum forsendur uppgjörsins á pólitískum hráskinnaleik, ef við byggjum forsendur uppgjörsins á því að vanvirða grundvallargildi sem ákæruvaldi í réttarríki ber frumskylda til að hafa í heiðri, þá nærum við ekki einungis falska tilfinningu um að uppgjör hafi farið fram heldur treystum stoðir stjórnmálamenningar sem ekkert lærði af hruninu.

Ég vil raunverulegt uppgjör sem skilar okkur betri stjórnmálum, betri starfsháttum, betri stefnu, betra samfélagi og betri framtíð. Ég bíð enn eftir tækifæri til að taka þátt í slíku uppgjöri.