140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[21:13]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Eins og ég rakti í þinginu á sínum tíma taldi ég ekki nægjanlegt tilefni til að stefna fyrrverandi ráðherrum fyrir landsdóm. Ég sagði því nei við tillögum um ákæru. Sú afstaða mín er óbreytt.

Ég hef um árabil haft efasemdir um og gagnrýnt það lagaumhverfi sem refsiábyrgð ráðherra er búin hér á landi og ég tel að sú staða sem nú er komin upp á Alþingi endurspegli enn frekar þá annmarka sem eru á kerfinu. Það er hins vegar og hefur verið afstaða mín að eftir ákvörðun Alþingis í september 2010 sé málið farið úr höndum Alþingis til saksóknara þingsins og landsdóms. Á þeim vettvangi hefur því þegar verið hafnað að vísa málinu frá. Þessi afstaða mín er meðal annars grundvölluð á kennisetningum virtustu stjórnskipunarfræðinga sem þjóðin hefur átt.

Það er á þessum grundvelli sem ég er sammála fyrirliggjandi tillögu um rökstudda dagskrá.