140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[21:20]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil búa í réttarríki þar sem ég get treyst því að allir séu jafnir fyrir dómstólum, háir sem lágir, og að ekki sé gripið inn í dómsmál sem er í ferli, fyrir landsdómi í þessu tilfelli. Alþingi setti þetta mál í farveg. Öll ákæruatriði voru vörðuð mikilli og vandaðri vinnu með virtum lagaprófessorum og ekkert hefur komið fram í málinu sem breytir því efnislega. Ég hafna því inngripi Alþingis í þetta mál sem ég tel rétt að ljúka eigi með niðurstöðu fyrir landsdómi en ekki í sölum Alþingis.

Ég legg því til að þessu máli verði vísað frá Alþingi.