140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[21:47]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Eins og fram hefur komið var það ekki mín tillaga sem flutningsmanns þessarar þingsályktunartillögu að málið færi til fastanefndar. Ég taldi fullnægjandi að saksóknarnefndin fengi tækifæri til að fjalla um málið áður en síðari umr. fer fram í þinginu. Nú kemur hins vegar fram tillaga um að málið fari til fastanefndar. Það ætti undir öllum venjulegum kringumstæðum, og ég tel að það eigi líka við núna, að tryggja faglegri og ítarlegri meðferð málsins. Það er ekki hægt að standa gegn því.

Ég vil láta það koma fram að ég er eftir sem áður þeirrar skoðunar að saksóknarnefndin ætti að fá tækifæri til að fjalla um málið jafnhliða því að málið yrði rætt í fastanefndinni. Það er þá undir þeim komið sem í þeirri nefnd sitja og henni stýra með hvaða hætti nefndin tekur á málinu, en eins og augljóst er gefst þar meðal annars tækifæri til að ræða við (Forseti hringir.) saksóknara Alþingis sem ástæða er til að minna á að er ekki hluti af framkvæmdarvaldinu.