140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

formennska í Samfylkingunni.

[13:41]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ef hv. þingmaður óskar eftir því get ég alveg sparað ástarjátningar mínar til Framsóknarflokksins. Hv. þingmaður veltir því fyrir sér hvort einhver flokkur sé að missa af lest. Ja, lítum yfir stjórnarandstöðuna. Hvað sjáum við þar? Við sjáum Framsóknarflokkinn sem er eins og í bandi Sjálfstæðisflokksins. Til hvers hefur það leitt? Jú, meðan Sjálfstæðisflokkurinn fer með himinskautum í skoðanakönnunum nær einn stjórnarandstöðuflokkur ekki einu sinni að halda sjó. Sá stjórnmálaflokkur er leiddur af þeim ágætu tvílembingum sem hv. þingmaður er partur af.

Ég skulda þessum tvílembingum Framsóknarflokksins engar frekari skýringar á ummælum mínum um innanflokksmálefni Samfylkingarinnar en þeir mér á sínum innri málefnum. Ef hv. þingmaður hefur lesið í gegn það viðtal sem ég lét taka við mig í Viðskiptablaðinu kemst hann að því að ég lýsti þar aðdáun minni á því með hvaða hætti forsætisráðherrann hefur tekist á við gríðarlega erfið verkefni á síðustu árum. Þar kemur algjörlega fram sú afstaða mín að ég tel að hún eigi að ljúka þeim verkum. Ef við veltum hins vegar fyrir okkur forustu annarra flokka held ég að hv. þingmaður ætti að ganga ákaflega varlega um dyr. Það er nefnilega staðreynd að tvílembingar Framsóknarflokksins ganga til kosningabaráttunnar með slitna brynju, sundrað sverð og syndagjöld. Þeim hefur tekist að kljúfa sinn flokk, hrekja frá honum einn af efnilegustu leiðtogunum. Þeir halda ekki einu sinni sjó frá kosningum og eina spurningin varðandi forustumál flokka er þessi: Verður skipt um forustu í Framsóknarflokknum fyrir eða eftir kosningar?